Skip to content

Kæru félagar.

Á síðasta aðalfundi talaði ég um það í ávarpi mínu að þau okkar sem lengi hafa starfað í ferðaþjónustu viti að þar skiptist á skin og skúrir. Að krefjandi ytri aðstæður geri okkur oft erfitt fyrir í rekstrinum. Ég nefndi það að óveðursský væru hangandi yfir okkur, en ég væri sannfærð um að framtíð áfangastaðarins og greinarinnar væri björt og fátt nema alheimsáföll gætu komið í veg fyrir vöxt og viðgang atvinnugreinarinnar.  

Nú stöndum við í miðjum fellibyl, sem einmitt varð til vegna alheimsáfalls. Kórónuveirufaraldurinn hefur einfaldlega stöðvað alla ferðaþjónustu í heiminum – eitthvað sem ég held að ekkert okkar hafi haft hugmyndaflug í að gæti gerst. Við  þekkjum auðvitað manna best þær gríðarlegu afleiðingar sem þetta hefur á rekstur fyrirtækjanna og ekki síður á þjóðarhag. 

Lykiltölur ferðaþjónustuársins 2019

Ferðaþjónustuárið 2019 einkenndist af breytingum. Erfiðara rekstrarumhverfi, hækkandi kostnaður og sterkt gengi gjaldmiðilsins hafði mikil áhrif á afkomu fyrirtækja. Sviptingar í flugrekstri höfðu í för með sér fækkun gesta en þrátt fyrir það jukust verðmæti á hvern ferðamann. Áhersla á sjálfbærni, umhverfismál og samfélagsábyrgð jókst og stjórnvöld hófu vinnu við gerð stefnu fyrir ferðaþjónustu til 2030. 

Ferðaþjónusta á Íslandi og í heiminum öllum stendur nú frammi fyrir miklum erfiðleikum í skammtímanum vegna COVID-19 faraldursins. Á næstu mánuðum mun reyna gífurlega á hversu umfangsmiklar aðgerðir stjórnvöld eru tilbúin að leggja í til að verja verðmætasköpun og lífskjör til framtíðar. Ef stjórnvöld ganga heilshugar að þessu verkefni, standa vörð um ferðaþjónustuna og þá stöðu sem hún hefur skapað er enginn vafi á því að fólkið í ferðaþjónustunni mun stíga fram tvíeflt og sjá til þess að næsti áratugur verður ábatasamur fyrir ríki, sveitarfélög og samfélagið allt.

Aðalfundur Samtaka ferðaþjónustunnar 2019 fór fram á Húsavík þann 14. mars, þar sem stjórn samtakanna var kjörin, breytingar á lögum og árgjaldi samtakanna samþykktar ásamt öðrum venjubundnum aðalfundarstörfum.

Stjórn samtakanna hittist á 13 formlegum fundum á starfsárinu, en auk þess tóku stjórnarmenn þátt í margvíslegum viðburðum og starfi á vegum samtakanna og annarra aðila. 

Nýir félagsmenn tóku sæti í fagnefndum á aðalfundi, en starf fagnefnda samtakanna er grundvallarstoð í starfi þeirra. Á aðalfundi var einnig samþykkt stofnun nýrrar fagnefndar, siglinganefndar.

Breytingar urðu á starfsfólki skrifstofu samtakanna á árinu og nokkrar breytingar hafa orðið á fulltrúum samtakanna í nefndum og ráðum á vegum ýmissa samstarfsaðila.

 

Menntun er lykilforsenda þess að Ísland mæti áskorunum framtíðarinnar sem felast í stöðugum samfélags- og tæknibreytingum og skapi úr þeim ný tækifæri, að Ísland verði eftirsóknarverður áfangastaður að heimsækja sem og eftirsóknarverður áfangastaður til búsetu, náms og vinnu.

SAF láta hæfni, mennta- og fræðslumál sig miklu máli varða og leggja sífellt aukna áherslu á fræðslumál í starfi sínu, enda er hæfni stjórnenda og starfsmanna forsenda aukinnar verðmætasköpunar í greininni. Mikilvægt er að auka arðsemi og samkeppnishæfni fyrirtækja í ferðaþjónustu og auk þess hafa áhrif á gildismat og viðhorf stjórnenda og starfsfólks til hæfniuppbyggingar, símenntunar og þjálfunar.

SAF hafa  leitt vinnu frá árinu 2017 í stýrihóp Hæfniseturs ferðaþjónustunnar sem vistað er sem verkefni hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins til ársins 2020.  

 

 

Venju samkvæmt áttu SAF í miklum samskiptum við stjórnvöld og stofnanir á árinu. Samtökin veittu fjölda umsagna við frumvörp og reglugerðir ásamt því að vinna að úrlausn mála fyrir aðildarfyrirtæki.

Meðal samstarfsverkefna SAF og stjórnvalda er aðgerðabundin stefnumörkun fyrir ferðaþjónustu til 2025, innan stefnuramma sem settur var fyrr á árinu.

SAF á í reglubundnu samstarfi við systursamtök á Norðurlöndum í ýmsum greinum, Evrópusamtök hótela og veitingahúsa, Hotrec, auk ferðaþjónustusamtaka í ýmsum löndum. 

Á vegum SAF eru unnar greiningar og efni um ýmis mál sem styðja og styrkja málflutning samtakanna á ýmsum vettvangi. Meðal þessa efnis eru skýrslur og tillögur um afmörkuð málefni.  

SAF stóðu fyrir fjölda viðburða af ýmsu tagi á árinu. 

Fjöldi félagsfunda fór fram á vegum samtakanna um málefni tengd rekstrar- og sakeppnisumhverfi aðildarfyrirtækjanna, m.a. um breytingar á lögum og reglugerðum og samskipti við stjórnvöld. 

Aðalfundur SAF og Ferðaþjónustudagurinn voru að þessu sinni haldnir hvor í sínu lagi, á Húsavík að vori og í Hörpu að hausti. 

Samtökin héldu sem fyrr uppi öflugu fræðslustarfi með ýmiss konar fundum og viðburðum, m.a. með nýjunginni SAFx – fyrirlestraviðburði um stafræna markaðssetningu.  

Þá stóðu SAF fyrir ýmsum viðburðum, fræðslufundum, og málstofum ásamt góðum samstarfsaðilum, þar á meðal SA, Íslenska ferðaklasanum, Íslandsstofu, Ferðamálastofu og SVÞ svo fáeinir séu nefndir.  

Eitt mikilvægasta hlutverk Samtaka ferðaþjónustunnar er að vera talsmaður atvinnugreinarinnar út á við, taka virkan þátt í opinberri umræðu um greinina og koma á framfæri upplýsingum, t.d. um rekstraraðstæður fyrirtækja, þróun ferðaþjónustu og framtíðarsýn og mikilvægi hennar fyrir efnahag og lífskjör á Íslandi.

Stjórn og starfsfólk SAF vinnur að þessu hlutverki með afar mikilvægum stuðningi félagsmanna samtakanna sem efla málefnalega umræðu um ferðaþjónustuna, m.a. með greinum, viðtölum og þátttöku í umræðu á samfélagsmiðlum.

Hér má sjá yfirlit um þátttöku SAF í fjölmiðlaumfjöllun á árinu 2019, annars vegar yfirlit sem er sérstaklega tekið saman af Cohn&Wolfe fyrir SAF um umfjöllun sem birtist á ýmsum miðlum á vefnum og hins vegar yfirlit fjölmiðlavaktar Creditinfo um umfjöllun á árinu 2019. 

 

0
Fjöldi aðildarfyrirtækja
0
Ný aðildarfyrirtæki 2019
0 %
Hlutfall SAF af SA
0
Fjöldi stöðugilda á skrifstofu