Skip to content

Kæru félagar.

Það er satt að segja örlítið snúið að halda “venjulegt” aðalfundarávarp við aðstæður sem þessar, þar sem eitt risastórt mál hefur yfirtekið allt okkar líf og starfsumhverfi. En lífið heldur áfram og nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að við höldum trú og einbeitingu, gætum hagsmuna okkar og horfum til framtíðar.

Síðasta starfsár hófst af krafti með aðalfundi samtakanna sem haldinn var á Húsavík þann 14. mars 2019. Þar nutu félagsmenn gestrisni heimamanna í blíðskaparveðri og góðri stemningu. Aðalfundurinn var þó haldinn í skugga harðvítugrar kjaradeilu þar sem spjótum verkalýðshreyfingarinnar var beint af fullum þunga á ferðaþjónustufyrirtækin. Þar var yfirvofandi stórtjón, hefðu áætlanir um verkföll náð fram að ganga eins og áætlað var

Í miðri kjarabaráttunni varð síðan meiri háttar viðburður, þegar annað íslenska flugfélagið, WOW Air hætti starfsemi eftir mánaðalangar tilraunir við að endurfjármagna rekstur sinn. Fall WOW Air og áhrif þess á vinnumarkaðinn og hagkerfið  varð síðan til þess að krafturinn í verkalýðshreyfingunni dofnaði verulega og var því skrifað undir hinn svokallaða lífskjarasamning þann 4. apríl 2019. Á meðan á þessu öllu gekk höfðu svo til að bæta gráu ofan á svart Boeing MAX flugvélar verið kyrrsettar, en þeim hafði Icelandair einmitt bætt við flota sinn og ætlað að nýta í flugáætlun sinni sumarið 2019 og framvegis.

A vordögum 2019 vorum við því með nýjan kjarasamning, sem vitað var að yrði mörgum ferðaþjónustufyrirtækjum þungur, sterka krónu og verulegan samdrátt í framboði flugs til landsins. Þetta allt saman þótti okkur mikil krísa, en flest myndum við nú eflaust glöð skipta á þeirri stöðu sem nú er uppi og henni. Hin fleyga setning “You ain’t seen nothing yet” hefði átt þarna vel við.

Starf Samtaka ferðaþjónustunnar hefur sjaldan verið eins öflugt og einbeitt og síðan þessi ósköp skullu á. Saman erum við svo miklu sterkari. 

Fjölbreytt verkefni samtakanna á starfsárinu.

Stjórn SAF hélt á starfsárinu 12 formlega fundi, auk ótal óformlegra,  þar af einn á Egilsstöðum í upphafi þessa árs.

Málefnin sem voru mest í sviðsljósinu voru auðvitað mál tengd stöðunni síðastliðið vor og sumar auk þeirra mála sem hafa verið á dagskrá um nokkurt skeið, s.s. varnir gegn sértækri gjaldtöku á ferðaþjónustu, baráttan gegn ólöglegri starfsemi sem grefur undan löglegum rekstri, aukin áhersla á rannsóknir og tölfræði og umfjallanir um hin ýmsu lagafrumvörp, sem snerta ferðaþjónustu beint eða óbeint. Það er líklegt að frumvarp um Miðhálendisþjóðgarð hefði verið þungamiðja á vordögum.

Á vettvangi Stjórnstöðvar ferðamála var þangað til fyrir skömmu aðaláherslan á stefnumótun stjórnvalda og atvinnugreinarinnar Leiðandi í sjálfbærni sem komin var vel á veg þegar hjólin hættu að snúast um miðjan mars. Það er ljóst að forsendur þeirrar stefnumótunar eru að mörgu leyti brostnar og það verkefni því stopp, þangað til hægt verður að rýna inn í framtíðina.  Það er þó rétt að nefna það hér að það hefur við núverandi aðstæður verið okkur ákaflega dýrmætt að Stjórnstöðin hafi verið við lýði og gildi þess og skilvirkni að hafa beinan aðgang að fjórum ráðherrum ríkisstjórnarinnar hefur verið ómetanlegt.

Innra starf samtakanna hefur verið í miklum blóma á starfsárinu. Það hefur verið kraftur í starfi fagnefndanna okkar og gildi fósturkerfisins, þar sem hver fagnefnd hefur stjórnarmann sem fóstra, sannað sig. Þessi beina tenging á milli fagnefnda og stjórnar er mjög mikilvæg til að þoka málum áfram.

Hæfnisetur ferðaþjónustunnar hefur haldið áfram að vaxa og dafna  og er nú greinin búin að koma sér saman um hvernig við viljum byggja upp heildstætt nám í greininni sbr.  skýrsluna „Hæfni er grunnur að gæðum“ og er vinna við  útfærsluna nú þegar hafin. Ég er sannfærð um að þau málefni sem varða menntun, hæfni og gæði muni í þeirri uppbyggingu sem framundan er hljóta enn meira vægi en áður.

Ferðaþjónustudagurinn var haldinn með glæsibrag í Hörpu 2. október síðastliðinn. Hann var með nokkuð öðru sniði en vant er, þar sem við vorum með nokkrar stuttar panelumræður um brennandi mál í greininni.

Forseti Íslands afhenti síðan Nýsköpunarverðlaun SAF við hátíðlega athöfn á Center Hotel á stofndegi samtakanna, þann 11. nóvember. Verðlaunahafinn að þessu sinni var Sjóböðin á Húsavík. Auk þess afhentum við í fyrsta skipti svokölluð Sprotaverðlaun, en þau hlutu annars vegar Hótel Ísafjörður vegna skíðagönguvörunnar Bara ég og stelpurnar og The Icelandic Lava Show.

Við erum sterkari saman.

Á síðasta aðalfundi talaði ég um það í ávarpi mínu að þau okkar sem lengi hafa starfað í ferðaþjónustu viti að þar skiptist á skin og skúrir, að krefjandi ytri aðstæður geri okkur oft erfitt fyrir í rekstrinum. Ég nefndi það að óveðursský væru hangandi yfir okkur, en ég væri sannfærð um að framtíð áfangastaðarins og greinarinnar væri björt og fátt nema alheimsáföll gætu komið í veg fyrir vöxt og viðgang ferðaþjónustu á Íslandi. Nú stöndum við í miðjum fellibyl, sem einmitt varð til vegna alheimsáfalls. Kórónuveirufaraldurinn hefur einfaldlega stöðvað alla ferðaþjónustu í heiminum – eitthvað sem ég held að ekkert okkar hafi haft hugmyndaflug í að gæti gerst. Við  þekkjum auðvitað manna best þær gríðarlegu afleiðingar sem þetta hefur á rekstur fyrirtækjanna og ekki síður á þjóðarhag.

Ég held að mér sé óhætt að fullyrða að síðan þessi ósköp skullu á hefur starf Samtaka ferðaþjónustunnar sjaldan verið eins öflugt og einbeitt. Ég vil allavega ekki hugsa þá hugsun til enda hvar við værum stödd í dag ef ekki hefði komið til það samstillta átak sem starfsfólk SAF og trúnaðarmenn með framkvæmdastjórann í fararbroddi hafa lagt af mörkum síðustu vikur – að ógleymdum hinum ýmsu félagsmönnum sem einnig hafa lagt styrka hönd á plóginn. Eftir að stjórnvöld kynntu pakka númer tvö þann 21. apríl varð ljóst að við þyrftum að hlaða í stórskotabyssurnar og gefa rækilega í í hagsmunabaráttunni. Markmiðið var að reyna af öllum mætti að knýja á um aðgerðir sem myndu nýtast sem flestum ferðaþjónustufyrirtækjum við að komast í var meðan á storminum stendur. 

Við bentum á að það væri kominn tími á sértækar aðgerðir fyrir ferðaþjónustufyrirtæki þar sem engin önnur atvinnugrein yrði fyrir viðlíka tekjutapi og hún. Við erum handviss um að samstillt átak okkar allra hafi síðan átt stóran þátt í aðgerðapakka númer þrjú sem kynntur var þriðjudaginn 28. apríl. Hann er svo sannarlega ferðaþjónustupakki. Flestöll fyrirtæki innan okkar raða hafa nú nýtt sér hlutabótaleiðina og fjölmörg hafa einnig sagt upp starfsmönnum sínum og fá hluta uppsagnarfrests greiddan úr ríkissjóði. Fleiri úrræði voru kynnt þann 28. apríl, en hafa ekki verið útfærð að fullu, ekki frekar en brúarlánin.

Í öllum okkar málflutningi hefur sú lína verið skýr að við viljum að sem flestum fyrirtækjum verði gert kleift að leggjast í hýði á meðan stormurinn gengur yfir. Við erum ennþá úti í miðri straumharðri á, en munum halda áfram á þessari braut. Það er ljóst að í okkar huga að fleiri þurfa að koma að borðinu og leggja sitt af mörkum og er þar kannski nærtækast að líta til sveitarfélaganna og ekki síður verkalýðshreyfingarinnar sem lætur eins og þessi krísa sé henni óviðkomandi að öðru leyti en því að auka við kröfur sínar.

Í þessum stormi hafa líka komið berlega í ljós ýmsar brotalamir, t.d. skortur á gögnum og upplýsingum um ferðaþjónustu, hennar rekstrarumhverfi og markaði. Þetta höfum við bent á árum saman og kannski verður þetta ástand til þess að úr þessu verði bætt. Pakkaferðalögin hafa sömuleiðis komist rækilega í sviðsljósið og það er einsýnt að þau verði tekin til rækilegrar endurskoðunar og ekki bara hér, heldur í allri Evrópu. Sú algjöra neytendavernd sem þar er við lýði stenst enga skoðun og erfitt að færa rök fyrir því að seljendur alferða þurfi að vera með víðtækari ábyrgð en önnur ferðaþjónusta, vara og þjónusta.

Áfangastaðurinn Ísland á framtíðina fyrir sér
og ferðaþjónusta mun verða atvinnugreinin
sem nær okkur upp úr kreppunni.
Allt tal um annað er óraunhæf þvæla. 

Í óvissri framtíð felast bæði ógnir og tækifæri.

Hvað framtíðin ber í skauti sér veit enginn. Við vitum ekki hvenær við verðum búin að ráða niðurlögum kórónuveirunnar. Við vitum ekki hvenær einstök lönd opna landamæri sín og þá með hvaða skilyrðum. Við vitum ekki hvenær Ísland mun opna gáttir sínar fyrir ferðamönnum á eðlilegum forsendum. Við vitum þó að umræðan er farin að snúast örlítið og þrýstingur á nauðsyn þess að koma hagkerfum heimsins í gang eykst dag frá degi. Það verða mörg siðferðileg álitamál í deiglunni á næstu vikum, til dæmis hvaða fórnarkostnaður sé réttlætanlegur með tilliti til heilbrigðissjónarmiða og hvar jafnvægið sé að finna. Úti um allan heim er fólk að velta þessu fyrir sér og þegar eru komnar í umræðuna alls kyns hugmyndir um það hvernig hægt sé að koma ferðaþjónustunni í gang, án þess að taka með því of mikla áhættu. Í þeirri umræðu eigum við að taka okkur pláss og hugsa lausnamiðað og vera tilbúin til að fara óvenjulegar leiðir, þegar þar að kemur. Við höfum sýnt það og sannað að við getum brugðist við áskorunum og erum tilbúin til að leggja mikið á okkur til að ná árangri.

Það er margt sem við vitum ekki en við vitum þó að áfangastaðurinn Ísland á framtíðina fyrir sér og að ferðaþjónusta mun verða atvinnugreinin sem nær okkur á endanum upp úr kreppunni. Allt tal um eitthvað annað er óraunhæf þvæla. Við vitum líka að líklega er lokið baráttu okkar við að halda því á lofti hversu mikilvæg ferðaþjónusta er með tilliti til öflunar gjaldeyristekna, sköpunar starfa og byggðasjónarmiða. Þeim sem ekki eru búnir að átta sig á því núna er ekki viðbjargandi.

Það eru miklar líkur á að Ísland muni standa mjög sterkt sem áfangastaður ferðamanna þegar upp verður staðið – bæði mun árangur okkar í baráttunni við veiruna leggja okkur þar lið, auk þess sem þau skilyrði sem hér eru í boði munu án efa verða eftirsótt af ferðamönnum. Eftir þetta hlé, þar sem tekið verður til hendinni á hinum ýmsu stöðum, bæði hjá fyrirtækjunum og hinu opinbera, mun áfangastaðurinn verða enn betri og sterkari. Forsendan fyrir því er þó að sem flest fyrirtæki standi sterk eftir og geti varðveitt mannauð sinn, þekkingu, reynslu og viðskiptasambönd. Það er verkefni okkar á næstu vikum og mánuðum að tryggja að svo verði.

Takk fyrir samstarfið.

Ég vil að lokum þakka ykkur öllum fyrir gjöfult samstarf á liðnu starfsári. Sérstaklega vil ég þó þakka fráfarandi stjórn, trúnaðarmönnum og ekki síst starfsfólki SAF sem hefur eins og áður sagði unnið myrkranna á milli undanfarnar vikur.

Þeir tímar sem nú fara í hönd verða ekkert auðveldir en það er mikilvægt að hafa í huga að allt tekur enda, það er ljós við endann á göngunum og að saman erum við svo miklu sterkari.