Skip to content

Áratugur ferðaþjónustunnar

Á undanförnum áratug hefur ferðaþjónusta gjörbreytt aðstæðum á Íslandi. Vöxtur atvinnugreinarinnar var stór þáttur í að vinna íslenskt samfélag upp úr vanda eftirhrunsáranna og breytti efnahagslegum veruleika þjóðarbúskapsins. Áratugum saman var talað um nauðsyn þess að skjóta fleiri stoðum undir gjaldeyristekjur þjóðarinnar og auka fjölbreyttni í atvinnulífinu. Um árabil hefur verið afgangur á vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd sem rekja má beint til vaxtar í ferðaþjónustu. Ísland er nú líkara Þýskalandi en Grikklandi í þeim efnum. 

Í raun má segja að ferðaþjónustan sé einstaklingsframtakið í sinni fegurstu mynd, þar sem fólk með góða hugmynd og trú á sjálfu sér og nærumhverfinu hefur lagt mikið undir til að framkvæma ótrúlega hluti. Vöxtur greinarinnar hefur verið árangursrík byggðaaðgerð Íslandssögunnar, sjálfsprottin byggðaaðgerð sem aukið hefur atvinnutækifæri og lífsgæði í litlum samfélögum um allt land. Um 90% Íslendinga segja nú að ferðaþjónustan hafi aukið lífsgæði í þeirra sveitarfélagi, sem er líklega besta einkunn sem nokkur atvinnugrein getur fengið.

Í umræðu um fjölda ferðamanna, verð á ferðaþjónustuvörum og ýmis vandkvæði í fyrirtækjarekstri gleymist það stundum að gestir okkar gefa íslenskri ferðaþjónustu nærri hæstu einkunn.

 Meðmælaskor Íslands sýnir að þó að við vitum að marga hluti sé hægt að gera betur eru íslensk ferðaþjónustufyrirtæki að standa sig ákaflega vel. Þrátt fyrir erfiðar rekstraraðstæður, síaukinn kostnað og eilífa baráttu við tekjusveiflur vegna gengis gjaldmiðilsins hefur íslensk ferðaþjónusta nefnilega náð ótrúlega góðum árangri. 

Í raun eru það ekki flóknar spurningar sem stjórnvöld þurfa að spyrja sig þegar kemur að því að ákvarða stefnu, fjármagn og framkvæmdir sem ýta undir áframhaldandi vöxt og viðgang ferðaþjónustu á Íslandi: 

Viljum við að þessi jákvæða þróun haldi áfram? Viljum við að þau góðu áhrif sem vöxtur ferðaþjónustu hefur haft á atvinnulíf um allt land haldi áfram? Viljum við að ferðaþjónusta haldi áfram að styðja við efnahagslegan stöðugleika og þar með lífsgæði fólks í landinu? Svarið hlýtur að vera já.

Ferðaþjónusta á Íslandi og í heiminum öllum stendur nú frammi fyrir miklum erfiðleikum vegna COVID-19 faraldursins. Fyrirsjáanlegt er að fyrirtæki í ferðaþjónustu verða fyrir gríðarlegu tekjufalli vegna heimsfaraldursins.  Á næstu mánuðum mun reyna gífurlega á hversu árangursríkar  aðgerðir stjórnvöld verða til að styðja við rekstur fyrirtækja og standa vörð um þá uppbyggingu og þau verðmæti sem staðið hafa undir vaxandi lífskjörum á undanförnum árum. Íslensk ferðaþjónusta þarf að vera vel í stakk búin að spyrna vel í þegar jákvæðar aðstæður skapast á markaðnum á ný. 

Ef stjórnvöld standa heilshugar að baki atvinnugreininni og verja þá stöðu sem hún hefur skapað eins og mögulegt er er enginn vafi á því að fólkið í ferðaþjónustunni mun stíga fram tvíeflt og sjá til þess að næsti áratugur verði ekki síður ábatasamur fyrir ríki, sveitarfélög og samfélagið allt en sá síðasti. 

Áhrif COVID-19 á ferðaþjónustu

Í mars urðu straumhvörf í ferðaþjónustu heimsins þegar þjóðir gripu til aðgerða vegna  COVID-19. Þegar þetta er skrifað (byrjun maí) er svo komið að  flugsamgöngur og ferðalög liggja niðri um víða veröld.  Á þessari  stundu er erfitt að segja til um umfang áfallsins fyrir áfangastaðinn.  Ísland tekjur þátt í ferðatakmörkunum innan Schengen-svæðisins og ríkja Evrópusambandsins sem tók gildi 20. mars og gildir til 15. maí nk. og þá skýrast línur þegar lönd gera nýjar áætlanir um ferðatakmarkanir vegna faraldursins. Viðskiptavinir íslenskrar ferðaþjónustu eru að stærstum hluta erlendir ferðamenn og mikil óvissa um hvenær þjóðir heims  finna hjá sér öryggistilfinningu til að ferðast um heiminn á ný þótt landamæri þjóða opni.  Óverulegur hluti tekna í Íslenskri ferðaþjónustu er vegna eftirspurnar Íslendinga á ferðalagi um eigið land eða undir 30%.  Ísland er á pari við Möltu, Eistland, Króatíu, Búlgaríu og Lettland í þeim efnum. Í Noregi er vægið öfug. Þar  er vægi innlenda markaðarins um 70% en vægi erlendra ferðamanna í umfangi ferðaþjónustunnar  um 30%. Í Danmörku er vægi innlendrar eftirspurnar 57%, í Svíþjóð 56%, í Finnlandi 69%.

Kaflinn um „ferðaþjónustuárið 2019“ var að mestu skrifaður áður en faraldurinn skall á. Það þarf að lesa hann með það í huga. Nú er öllum ljóst að áhrif af COVID-19 voru mun meiri en gert var ráð fyrir í fyrstu. Faraldurinn mun hafa gríðarleg áhrif á þjóðir heims og fela í sér mikinn samfélags- og efnahagslegan kostnað. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir veiruna mestu ógn sem þjóðir heims hafa staðið frammi fyrir frá síðari heimsstyrjöld. Alþjóðastofnanir gera nú ráð fyrir að efnahagssamdráttur í heiminum verði viðlíka og í kreppunni miklu á 3. og 4. áratug síðustu aldar. 

Ísland er einstakur áfangastaður en atvinnugreinin fjölþætt og flókin teymisvinna sem smit og veiruvarnir hafa feykt á hliðina. Ástandið er mikil áskorun fyrir atvinnugreinina og  mikilvægt að spyrja „hvar viljum við vera?“ þegar hagkerfi heimsins taka við sér á ný og alþjóðasamfélagið er tilbúið að taka það skref saman að ferðast á ný.

Ferðaþjónusta aflvél verðmætasköpunar

Liðinn áratugur einkenndist af vexti í flugi og ferðaþjónustu. Atvinnugreinin var bjargvætturinn, aflvélin sem reisti hagkerfið við eftir efnahagshrunið. Á síðasta ári hægði á í hagkerfinu, ekki síst vegna áfalla í flugrekstri með tilheyrandi áhrifum á fyrirtæki í ferðaþjónustu.

Í lok mars 2019 varð fyrirtækið WOW Air gjaldþrota og í sömu andrá kyrrsetti Icelandair allar nýju Boeing 737-MAX flugvélar fyrirtækisins í öryggisskyni. Um svipað leyti fóru fram þungar kjarasamningsviðræður á vinnumarkaði. Fréttir af loðnubresti og verri efnahagshorfum á erlendum mörkuðum juku jafnframt á óvissu. Efnahagsspár sveifluðust frá samdrætti yfir í hagvöxt en hvað sem öllu líður var ljóst að hagvöxtur yrði umtalsvert lægri en meðalhagvöxtur undanfarin ár. Á mynd kemur fram að í lok apríl 2020 gerir Hagstofan ráð fyrir að hagvöxtur á árinu 2019 hafi verið um 1,9% eða viðlíka og á árinu 2008. Helstu ástæður fyrir minni hagvexti voru minni loðnuveiði, vandamál í áliðnaði, of hátt vaxtaálag á ný útlán til fyrirtækja, meiri óvissa í efnahagshorfum í helstu viðskiptalöndum og neikvæð áhrif veirusýkingar á ferðalög um heiminn.,

Flestar hagspár gáfu til kynna að fljótt mundi rofa aftur til í hagkerfinu enda óhugsandi að sjá fyrir þá atburði sem voru í aðsigi. Nýjustu spár Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir Ísland gera ráð fyrir að hagvöxtur muni dragast saman um 7,2% í ár en stofnunin gerir jafnframt ráð fyrir að landsframleiðsla taki við sér á ný, strax á næsta ári. Hagspár fyrir önnur lönd eru allar á sama veg, hagvöxtur er neikvæður í þeim öllum. Í samanburði við hin Norðurlöndin er samdrátturinn meiri hér á landi enda vægi ferðaþjónustu hærra hér en þar.  

Í stóru myndinni var staðan fyrir COVID-19 nokkuð góð. Stöðugt gengi, lág verðbólga, lágir vextir og afgangur á viðskiptajöfnuði eru allt vísbendingar um að stoðum efnahagslífsins hafi fjölgað og samspil í verðmætasköpun aukist. Á móti hefur atvinnuleysi vaxið í takt við minnkandi umsvif og breytta samkeppnisstöðu.

Þróunin er ólík því sem áður var að venjast í niðursveiflu þegar gengið var fellt í þeim tilgangi að bæta samkeppnisstöðu útflutningsgreina. Í því samhengi væri hægt að tala um nýtt Ísland og gamalt Ísland – fyrir vöxt ferðaþjónustunnar og eftir.

Á næstu mánuðum mun reyna gífurlega á hversu árangursríkar aðgerðir stjórnvöld verða til að standa vörð um ferðaþjónustuna sem staðið hefur undir vaxandi lífskjörum á undanförnum árum

Varnarsigur

Staðan í upphafi árs beindi sjónum að því lykilhlutverki sem flugsamgöngur gegna fyrir áfangastaðinn Ísland og reyndar hagkerfið í heild. Skellurinn af falli WOW Air varð ekki eins mikill og á horfðist í fyrstu.  Margar ástæður geta útskýrt það en þessar skipta mestu máli.

  • Vægi skiptifarþega í farþegaflutningum WOW Air hafði vaxið hratt á undanförnum árum, talsvert meira en vægi erlendra farþega sem voru að koma að heimsækja Ísland.
  • Gott viðbragð Icelandair ehf. við breyttu umhverfi skilaði fleiri erlendum ferðamönnum til landsins en menn gerðu ráð fyrir, ekki síst vegna kyrrsetningar MAX-vélanna. Félagið leigði þrjár rúmlega 260 sæta breiðþotur frá portúgalska flugfélaginu Euro Atlantic Airways, eina Boeing-757 vél frá spænska flugfélaginu Privilege Style (rúm 180 sæti) og eina Airbus-vél frá GetJet í Litháen (rúm 150 sæti). Þessi ákvörðun Icelandair gerði félaginu kleift að flytja 24% fleiri erlenda ferðamenn til Íslands en á árinu 2018. Félagið leigði vélarnar með áhöfnum sem skýrir að hluta fjölgun gistinótta hjá þessum þjóðernum á árinu í fyrra. Strangt til tekið eru þessir flugliðar ekki ferðamenn á Íslandi en samt sem áður kærkomnir viðskiptavinir fyrirtækja í ferðaþjónustu.

  • Í kynningu Icelandair Group hf. á uppgjöri fyrir árið 2019 kom fram að árið hefði verið krefjandi hjá fyrirtækinu en tekist hefði að hagræða í undirliggjandi rekstri. Lausafjárstaða og eiginfjárstaða hafi verið nokkuð veik en sveigjanleiki og styrkur leiðarkerfisins hafi skipt sköpum. Þar kom jafnframt fram að félagið horfi af bjartsýni til framtíðar enda tækifærin fyrir áfangastaðinn mörg og mikil.

  • Þá fjölgaði ferðamönnum með erlendum flugfélögum um 11% eftir fækkun á árinu

mynd 3
  • Undanfarin ár hefur vaxandi hlutdeild erlendra flugfélaga leikið stórt hlutverk í að flytja erlenda ferðamenn til landsins. Fjöldi farþega með erlendum flugfélögum náði hámarki 2017 en á því ári var markaðshlutdeild þeirra 44%. Á árinu 2018 fækkar þeim hins vegar um 12% milli ára en þeim fjölgar aftur í fyrra um 11%. Sumarið 2019 flugu 26 erlend flugfélög til landsins, tveimur færri en árið 2018.

  • Síðast en ekki síst gaf gengi ISK-krónunnar eftir, hún lækkaði samkvæmt gengisvísitölu um  8%  þannig að hver ferðamaður var tilbúinn að verja meiri peningum hér á á landi, dvelja lengur og leyfa sér meira en á árinu 2018.

Fjöldi flugfélaga er ekki töfralausn þegar kemur að fjölda erlendra ferðamanna til landsins. Sætaframboð og tíðni ferða skiptir einnig miklu máli.

Áfangastaðurinn Ísland – skiptifarþegar

Vissulega fækkar erlendum ferðamönnum sem heimsækja landið en mælingar sýna að meðalútgjöld hækkuðu og dvölin lengdist, frá mikilvægum mörkuðum. Það er ígildi fleiri ferðamanna. Til viðbótar við þær tæpu 2 milljónir ferðamanna sem komu um Keflavík komu 8 þúsund erlendir gestir um aðra flugvelli. Þá komu milljón skiptifarþegar (taldir einu sinni) með flugi til Keflavíkur á leið sinni til annarra áfangastaða en þeim fækkar um 48% frá árinu 2018. Sú fækkun skýrist að stærstum hluta af falli WOW Air en skiptifarþegum fækkaði jafnframt hjá Icelandair um 10% í fyrra. 

Ferðamenn með skipum

Rösklega 516 þúsund erlendir dagsferðamenn komu með skemmtiferðaskipum til helstu hafna landsins og tæplega 21 þúsund farþegar komu um Seyðisfjörð. Æ fleiri íslenskar sjávarbyggðir taka á móti farþegaskipum með tilheyrandi þjónustuþörf fyrir skip og farþega. Samkvæmt könnun RMF meðal farþega á Húsavík og Siglufirði 2019 voru langfestir svarenda búsettir í Norður-Ameríku, um 57%. Stærsti hluti svarenda  kom með flugi til Íslands, 76%. Um helmingur (48%) svarenda leitaði upplýsinga um Ísland og hvaða kostir eru í boði í landi er komið á vefsíðu viðkomandi skipafélags.

mynd 05

Samkvæmt ferðaþjónustureikningum frá árinu 2017 er neysla/útgjöld erlendra ferðamanna/dagsferðamanna sem koma með skemmtiferðaskipum um 0,8% af heildarneyslu/útgjöldum erlendra ferðamanna á því ári. Það dregur fram mikilvægi þess að þróa reikningana áfram til að hægt sé að sjá áhrif skemmtiferðaskipa á tekjur og gjöld ríkis og sveitarfélaga, á fjárfestingu o.s.frv.  

Íslendingar á faraldsfæti

Í fyrra fóru Íslendingar í rúmlega 611 þúsund ferðir til útlanda og fækkar þeim um 8,5% milli ára, Það er í fyrsta sinn frá árinu 2009 sem ferðum fækkar milli ára en það ár voru þær 255 þúsund og hafði þeim fækkað um 37% milli ára. Það  endurspeglar áhrif bankahrunsins á ferðir landsmanna til útlanda. 

Á árinu 2018 námu útgjöld Íslendinga erlendis 219 milljörðum kr. á föstu gengi en gera má ráð fyrir að þau hafi verið um 9,5% lægri í fyrra, um 199 milljörðum kr.  Til samanburðar jókst einkaneysla heimila alls um 1,6%.

Það vekur athygli en kemur þó ekki sérstaklega á óvart að kaup Íslendinga á flugmiðum með erlendum flugfélögum jókst mikið í fyrra en þau námu 16,3 milljörðum kr. eða 68% hærri á föstu gengi milli ára. 

                Útflutningur – innlend hagþróun

Í dag á íslenskt samfélag gríðarlega mikið undir framgangi ferðaþjónustu sem atvinnugreinar, ekki síst vegna þess að þjóðhagslegur ávinningur hennar snertir íslenska hagsmuni með mun breiðari hætti en kemur fram í beinum áhrifum hennar á  landsframleiðslu. Þannig hefur sala á matvælum til hótela og veitingastaða verið mun meiri vegna neyslu erlendra ferðamanna en ella hefði orðið. Það sama er hægt að segja um verðmætasköpun í skapandi greinum, í verslun og menningarstarfsemi af ýmsum toga. Sala aðfanga hvers konar hefur jafnframt mikil margföldunaráhrif – og hver man ekki eftir hagstjórnarvandamálum í einhæfu og ósveigjanlegu hagkerfi?

Ferðaþjónusta er góð viðbót inn í einhæft atvinnulíf hér á landi. Í henni eins og öðrum atvinnugreinum hefur sjálfvirkni og gervigreind aukið framleiðni á undanförnum árum, spjaldtölvur styðja við leiðsögu og gervigreind og liðka fyrir í samskiptum við erlenda ferðamenn. Þannig vinna auðlindagreinar og hugverka- og tæknigreinar vel saman; styðja og styrkja hver aðra. 

Frá árinu 2016 hefur þjónustuútflutningur verið meiri en helmingur af öllum útflutningi landsins, þar skiptir útflutningur á ferðaþjónustu mestu. Á 10. áratugnum var vægi útfluttrar þjónustu að meðaltali um 14% af VLF. Á liðnum áratug var meðaltalið um fjórðungur. Eins og fram kemur á myndinni hefur hagvöxtur vaxið um 36% frá árinu 2010,  á sama tíma eykst vöruútflutningur um fjórðung en útflutt þjónusta um rúmlega 72% þrátt fyrir samdrátt í fyrra.

Eins og fram kemur á myndinni til hægri vex neysla erlendra ferðamanna hér á landi um rösklega 270% frá árinu 2010 en það er meginskýring að baki vexti í útfluttri þjónustu. Vöxtur í fargjaldatekjum var um 40% á sama tímabili.

Á árinu 2018 námu tekjur af neyslu/útgjöldum erlendra ferðamanna (án flugmiða til landsins) um 338 milljörðum kr. sem er um helmingur (48%) af útfluttri þjónustu á því ári. Fargjaldatekjur íslenskra flugfélaga af þjónustu við erlenda flugfarþega námu um 182 milljörðum kr. árið 2018 eða um fimmtungi af þjónustutekjum ársins. Samkvæmt ferðaþjónustureikningum fyrir árið 2017 (nýrri tölur eru ekki til) var vægi fargjaldatekna íslenskra flugfélaga vegna þjónustu við erlenda flugfarþega sem voru að koma til Íslands um 36%.

mynd 07b

Eins og myndin hér að ofan rekur var neysla erlendra ferðamanna (á föstu verði) enn að vaxa á árinu 2018 þrátt fyrir fækkun i fjölda erlendra ferðamanna (-14%) til landsins. Tekjur af viðskiptum erlendra ferðamanna hér á landi dragast saman um tæp 5% sem er lítið ef marka má tölur um fjölda erlendra ferðamanna til landsins. Upplýsingar samkvæmt kortaveltu sýna svipaða niðurstöðu.

Fargjaldatekjur byrjuðu hins vegar að lækka (5%) strax á árinu 2018. Sú þróun hélt áfram á síðasta ári þegar þær lækkuðu um 31% milli ára vegna falls WOW Air, þar skiptir mestu minni tekjur vegna mikillar fækkunar á skiptifarþegum yfir hafið. Erfitt er að átta sig á stöðu þeirra flugfélaga sem eru með starfsstöð á Íslandi en starfa alfarið utan Íslands en starfsemi þessara fyrirtækja eru ekki síður mikilvæg stoð í útflutningi þjóðarinnar.

Samkvæmt Rannsóknasetri verslunarinnar dregst eftirspurn erlendra ferðamanna saman í flestum útgjaldaliðum í fyrra – en ekki öllum. Útgjöld aukast í verslun, á söfnum og í annarri afþreyingu.

Eftirspurn eftir bílaleigubílum dregst hins vegar saman um 6% sem er í góðu samræmi við lækkun á virðisaukaskattsveltu en hún lækkar um 5% milli ára. Útgjöld erlendra ferðamanna í hótelgistingu dragast saman um 2% frá fyrra ári sem er í takt við samdrátt (-1,7%) í virðisaukaskattsveltu. Í fyrra lækkaði verð á gistingu um rúm 6% milli ára samkvæmt samræmdri vísitölu Hagstofu Íslands sem skýrir vöxt í fjölda gistinótta en ekki veltu. 

Helstu markaðssvæði

Í fyrra fækkaði ferðamönnum af nærri öllum þjóðernum. Þrátt fyrir mikla fækkun frá helstu markaðssvæðum eins og Bandaríkjunum, Bretlandi og Þýskalandi eru ferðamenn af þessum þjóðernum enn stærstu viðskiptavinir ferðaþjónustunnar eða um 43% af heild. Samtals komu um 867 þúsund (10 þúsund komu með Smyril Line) gestir frá þessum þrem löndum, 275 þúsund færri en 2018. Til gamans má geta þess að á árinu 1999 komu alls 263 þúsund erlendir ferðamenn til landsins.

Þrátt fyrir 231 þúsund færri ferðamenn frá Bandaríkjunum í fyrra komu um 463 þúsund erlendir ferðamenn þaðan í fyrra. Nú eins og undanfarin ár eru það bandarískir ferðamenn sem hópur sem skila mestum tekjum til fyrirtækja í ferðaþjónustu og þrátt fyrir að þeim hafi fækkað um rúmlega 33% milli ára jókst neysla þeirra, útgjöld hér á landi, um 23% enda eykst kaupmáttur dollars um tæp 12%. Það getur líka haft jákvæð áhrif á dvalarlengd en hún  eykst um 3,4%, þ.e. úr 5,4 dögum í 5,6 daga. Í fyrra komu 261 þúsund erlendir ferðamenn frá Bretlandi og fækkar um 12% milli ára en meðalútgjöld  aukast um 18%. Kaupmáttur pundsins eins og dollars eykst og dvöl breskra ferðamanna lengdist um 14,7%, úr 4,5 í 5,2 nætur. Þjóðverjum (132 þúsund) fækkar minna eða um 5,1% og meðalútgjöldin vaxa um rúm 15% milli ára en verð á krónu í evru lækkar um 7%. Þjóðverjar dvelja lengst, rúma 8 daga.

Í fyrra var mesta fjölgun í ferðamönnum frá Kína. Um 99 þúsund ferðamenn komu þaðan og fjölgaði þeim um 11% milli ára. Vægi ferðamanna frá Kína er ekki hátt eða um 5% af heildarfjölda ferðamanna en hægt er að heyra á umræðunni að miklar væntingar voru í gangi um áframhaldandi vöxt frá Kína. Nú er viðbúið að Kínverjar muni draga verulega úr ferðalögum næstu misserin. 

Á grundvelli tiltækra gagna má gera ráð fyrir að meðalútgjöld ferðamanna frá helstu mörkuðum hafi hækkað í fyrra nema hjá frönskum og kínverskum ferðamönnum. Myndin sýnir að leitnin er lækkandi á undanförnum árum hjá öllum þjóðernum að Bretum undanskildum, þar  hafa útgjöldin hækkað umtalsvert.

En hvar verða verðmætin til? Það getur verið erfitt að finna „besta ferðamanninn og bestu markaðina“ en þegar meðaltekjur á hvern ferðamann hækka er það vísbending um að erlendi ferðamaðurinn leiki stærra hlutverk í verðmætasköpun en áður. Eins og fram hefur komið er það sennilega breytt samsetning ferðamanna, veikari króna, lengri dvarlarlengd og meira úrval af afþreyingu og gæðameiri gistingu sem skiptir sköpum i þessari þróun. Mælikvarðinn er þó takmarkaður – hann nær ekki til allra útgjalda ferðamannsins, eins og opinberra þjónustugjalda, t.d. á flugmiða. Hann tekur ekki mið af kostnaði að baki tekjunum – hann horfir ekki á hvaða vörur og hvaða þjónusta skila mestum arði, hvaða atvinnugreinar eru að skapa verðmætin, afkomuþróun fyrirtækja í mismunandi geirum ferðaþjónustunnar, arðsemi einstakra svæða og hann dregur ekki fram umhverfissporin.

Útflutningur – samkeppnishæfni

Vegna smæðar landsins hlýtur áherslan alltaf að vera á útflutning og samkeppnishæfni landsins í samanburði við aðrar þjóðir. Uppspretta verðmætasköpunar og velferðar hvílir þar á.  Á árinu 2019  námu gjaldeyristekjur þjóðarinnar rösklega 1.300 milljörðum kr. Fluttar voru út vörur fyrir um 653 milljarða kr. en útflutt þjónusta nam um 691 milljarði kr. eða um 51% af heildarútflutningstekjum ársins.

Í fyrra  námu tekjur í helstu útflutningsgreinum landsins um 70% af heildarútflutningstekjum ársins.  Nú er svo komið að tekjur af erlendum ferðamönnum ásamt fargjaldatekjum íslenskra flugfélaga við að flytja erlenda ferðamenn um heiminn eru ein meginuppistaðan í útflutningstekjum þjóðarinnar. Þar hefur hugvit einstaklinga verið einmeginuppstaða nýsköpunar síðustu misserin, í bæði stóru og smáu. Á síðustu misserum hafa t.d. nokkur mikilvæg verkefni orðið til í tengslum við flugrekstur. Eitt af þeim er flugkennsla í flughermi sem hefur víða óbein áhrif í ferðaþjónustu landsins.

Fyrir tilstuðlan erlendra ferðamanna hefur innlend þjónusta með tilheyrandi framleiðni og óbeinum áhrifum um allt hagkerfið drifið áfram hagvöxt. Mikil þróun hefur verið í sjálfvirkni og gervigreind. Í leiðsögu hafa t.d. spjaldtölvur og gervigreind liðkað fyrir í samskiptum við erlenda ferðamenn. Þannig vinna þjónustu- og auðlindagreinar, hugverka- og tæknigreinar vel saman; þær styðja og styrkja hver aðra.

Vissulega nýtir ferðaþjónusta sem atvinnugrein innviði landsins eins og gengur og gerist í öðrum  atvinnugreinum. Öflugir innviðir eru lífæð og öryggisnet samfélagsins. Öruggir innviðir í lofti, á láði og legi styðja jafnframt við byggð í landinu. Síðast en ekki síst  tryggja þeir samkeppnishæfni atvinnugreina og þar með lífskjör samfélagsins – í stóru myndinni – til framtíðar.

Vegna smæðar landsins hlýtur áherslan alltaf að vera á útflutning og samkeppnishæfni landsins. Það er uppspretta verðmætasköpunar og velferðar

Afkoma – breytt árferði

Árið í fyrra var um margt krefjandi og fyrirtæki þurftu að hugsa í nýjum lausum. Eftir mikla eftirspurnarhrinu gátu fyrirtækin hafist handa við að takast á við breytt árferði. Í umræðu forsvarsmanna fyrirtækja er hægt að greina að nú skapist tækifæri til að færa áherslur frá miklum vexti yfir í meiri gæði og verðmæti af viðskiptum við ferðamenn, tryggja sjálfbæran rekstur og betri nýtingu á flestum sviðum, hagræða, sameinast og vaxa í gegnum framleiðni.

Upplýsingar um afkomuþróun á árinu 2019 liggja ekki fyrir nema frá Icelandair sem er eina fyrirtækið í ferðaþjónustu sem er á markaði og þarf að fylgja reglum um skráð félög. Eins og rakið er hér að ofan gefa farþegaflutningar með flugi ekki rétta mynd af þróun ferðaþjónustunnar í heild. Ef horft er til veltubreytingar samkvæmt gjaldeyristekjum og virðisaukaskattsveltu gefa þær upplýsingar til kynna að í þeim atvinnugreinum sem eiga mikið undir eftirspurn erlendra ferðamanna verði tekjur fyrirtækja í ferðaþjónustu (fyrir utan flugrekstur) svipaðar og 2018. Báðar stærðirnar eru heildarstærðir og það getur að sjálfsögðu verið  töluverður munur á milli fyrirtækja og á milli atvinnugreina.

Veltan segir ekki alla söguna. Á árinu 2018 versnar afkoma fyrir fjármagnsliði í öllum helstu atvinnugreinum ferðaþjónustunnar fyrir utan hótel og gistiheimili með veitingasölu, þar vænkast afkoman lítillega milli ára. Eins og myndin rekur var staðan í rekstri hótela og veitingahúsa með veitingasölu og hjá bílaleigum ekki frábrugðin afkomuþróun í viðskiptahagkerfinu í heild. Þar versnar afkoman um 1,8% af tekjum 2018. Afkoman er best hjá ferðaskipuleggjendum en þar var veltan um 39 milljarðar á árinu 2018. Afkoman versnar mest í farþegaflutningum með flugi. Í stóru útflutningsgreinunum batnaði afkoman í veiðum og vinnslu um 1,4% af tekjum 2018 en afkoman versnar nokkuð í framleiðslu málma.

Ef þróunin verður á þann veg að tekjur verði óbreyttar á árinu 2019 borið saman við 2018 verður afkoman að líkindum verri, að öllu öðru óbreyttu. Þar skiptir mestu mikil hækkun launakostnaðar en hann hækkaði um um 6% milli ára í fyrra. Laun og launatengd gjöld eru ekki einu kostnaðarliðirnir sem hafa hækkað á undanförnum árum, hátt fasteignamat á atvinnuhúsnæði með tilheyrandi hærri fasteignagjöldum og leigu hefur verið íþyngjandi fyrir mörg fyrirtæki í ferðaþjónustu. 

Eftir langt vaxtartímabil í ferðaþjónustu
tók við tímabil hagræðingar og varnarbaráttu

Hár launakostnaður

Það er gott að minna á að þjónusta við ferðamenn er samsett úr mörgum atvinnugreinum með ólíka kostnaðaruppbyggingu. Myndin sýnir að sumar atvinnugreinar í ferðaþjónustu eru mannaflsfrekari en aðrar. Í viðskiptahagkerfinu í heild var launhlutfallið (meðaltalið) tæplega 28% af rekstrartekjum á árinu 2018 sem er lægra en hlutfallið  í hótel- og veitingarekstri, veiðum og vinnslu og farþegaflutningum á landi. Hlutfallið er lægra í rekstri bílaleiga, hjá ferðaskipuleggjendum og í farþegaflutningum með flugi  sem er afar fjármagnsfrek atvinnugrein. Launahlutfallið er lægst í framleiðslu málma.

Þrátt fyrir mikla veltuaukningu  undanfarin ár setti gengisstyrking og seinna miklar launahækkanir og hærri fasteignagjöld mikinn  þrýsting á hagræðingu. Nú þegar hægir verulega á er óumflýjanlegt að fyrirtækin þurfi að segja upp starfsfólki, einhver hætta rekstri og önnur sameinast. 

Fjárfesting 

FJÁRFESTING Í DAG LEGGUR GRUNN AÐ VELFERÐ FRAMTÍÐAR

Upplýsingar um þróun fjárfestingar yfir tíma er mikilvæg vísbending um nýsköpun í atvinnulífinu. Það er ekkert dularfullt við fjárfestingar í ferðaþjónustu en samt sem áður hefur hún ekki verið skilgreind í íslenskum þjóðhagsreikningum sem er óskiljanlegt. Skilgreining samkvæmt alþjóðlegri forskrift hefur legið fyrir um árabil og SAF hafa lengi kallað eftir upplýsingum um fjárfestingu fyrirtækja sem eru að selja ferðaþjónustu á markaði.  

Með ákveðnum fyrirvörum má gera ráð fyrir að fjárfesting í ferðaþjónustu á tímabilinu 2015-2018 hafi verið um 387 milljarðar kr. Mest var fjárfest í hótel- og veitingahúsarekstri, flugrekstri og bílaleigum. Fjárfesting í fjölbreyttum hópi ferðaskipuleggjenda og í mismunandi afþreyingarstarfsemi var um 19 milljarðar kr. – litlar upplýsingar eru til um hvað liggur hér að baki. Það kemur ekki á óvart að mikil fjárfesting hefur átt sér stað á Keflavíkurflugvelli en hins vegar hafa útgjöld til fjárfestinga í öðrum flugvöllum/innanlandsflugvöllum verið sáralítil á á sama tíma.

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands var fjárfesting í hótel- og veitingahúsarekstri um 15 milljarðar kr. í fyrra. Til samanburðar námu fjárfestingar á sama verðlagi um 35 milljörðum kr. árið 2016. Við fyrstu sýn virðist áætlun Hagstofunnar fyrir árið 2019 vera of lág þegar horft er til þess að góður gangur er í byggingu hótela, eins og í gamla  Landsímahúsinu við Austurvöll, nýtt Íslandshótel er að rísa í Lækjargötu og nýtt Mariott-hótel í Keflavík. Á þessu ári er gert ráð fyrir að alþjóðleg hótelkeðja opni nýtt fimm stjörnu hótel við hlið Hörpu (erlend fjárfesting) sem hefur aðgang að stórum en nýjum markhóp, með sértækar þarfir og óskir um fjölbreytta upplifun í sérflokki, Þessi hópur verður sennilega alltaf fámennur en mikilvægur til að skapa ný verðmæti í langri virðiskeðju sem teygir sig um allt land. 

Fjárfesting í hótelbyggingum endurspeglar jákvætt viðhorf til áframhaldandi vaxtar í ferðaþjónustu Markmið og væntingar að baki fjárfestingunni var að mæta vaxandi eftirspurn erlendra ferðamanna enda fá teikn á lofti um að mikil breyting yrði þar á – fjárfestingin var jafnframt kærkomin viðbót við innviðauppbyggingu enda hagvöxtur nær óhugsandi án þess að aukning verði á þeim fjármunum sem viðkomandi hagkerfi hefur til umráða.  

Fjárfesting bílaleigufyrirtækja hefur verið að meðaltali um 10,5 milljarðar kr. á undanförnum en í fyrra má gera ráð fyrir að þær fjárfestingar hafi dregist verulega saman. 

Bílaleigur hafa gegnt lykilhlutverki í dreifingu ferðamanna um landið en dreifing ferðamanna hefur verið meðal forgangsverkefna á sviði ferðaþjónustu síðustu ár. Hlutfall erlendra ferðamanna sem leigja bíl á Íslandi fór úr 36% árið 2011 í 61% árið 2018. Engin fyrirsjáanleg breyting er á þessari stöðu á næstunni. 

Ef „hringvegurinn“ á að vera ein af okkar eftirsóttu „ferðaþjónustuvörum“ og hafa það hlutverk að dreifa ferðamönnum um landið þarf að samþætta það markmið við, fjárfestingar og viðhald í vegakerfi landsins. Það á öllum að vera ljóst. Myndin að neðan sýnir að stjórnvöld hafa ekki gengið í takt við greinina þegar kemur að fjárfestingum  í vegum hér á landi. 

Bílaleigur hafa verið duglegar að fjárfesta í nýjum og öruggari ökutækjum sem sannarlega hafa dregið úr slysatjónum á ótraustu vegakerfi. Hvert alvarlegt slys kostar samfélagið tugi milljóna fyrir utan það andlega álag sem aldrei er hægt að meta til fjár. Það er þó spurning hve lengi sú viðleitni  mun duga ef viðhald og uppbygging verður áfram vanrækt. 

Fjárfesting og skuldir

Miklum nýfjárfestingum fylgja tilheyrandi skuldir sem eykur áhættu og veikir viðnámsþrótt þegar efnahagsskilyrðin versna. Í mikilvægum greinum ferðaþjónustunnar voru heildareignir í árslok 2018 um 511 milljarðar kr. Heildarskuldir voru tæplega 400 milljarðar kr. og eigið fé 111 milljarðar kr.

Án farþegaflutninga með flugi eru heildareignir í árslok 343 milljarðar kr., heildarskuldir 250 milljarðar kr. og eigið fé 93 milljarðar kr.  Eiginfjárhlutfallið var 27% í árslok 2018 en var 25% í árslok 2017.  

Myndin sýnir að eiginfjárhlutfall í viðskiptahagkerfinu í heild var 43% á árinu 2018 og helst nokkuð stöðugt milli ára. Í ferðaþjónustu er hlutfallið hæst hjá ferðaskrifstofum og ferðaskipuleggjendum. Þrátt fyrir miklar fjárfestingar í gistirýmum vex  eiginfjárhlutfall í hótelrekstri með veitingasölu. Hlutfallið stendur í stað í veitingasölu.

Eiginfjárhlutfall í veiðum og vinnslu í árslok 2018 var 43% en fjárstyrkur er áberandi bestur í framleiðslu málma eða  75% á árinu 2018.

Það kemur ekki á óvart mikil lækkun á hlutfalli eigin fjár í farþegaflutningum með flugi en það lækkar úr 28% á árinu 2017 í 11% á árinu 2018 en þar litar lágt eiginfjárhlutfall WOW Air í árslok 2018 stöðuna. Samkvæmt ársuppgjöri Icelandair Group hf. var eiginfjárhlutfall fyrirtækisins 32% á árinu 2018 og hækkaði í 36% 2019.

Þrátt fyrir miklar fjárfestingar í ferðaþjónustu og vaxandi skuldir hefur arðsemi eigin fjár í ferðaþjónustu, fyrir utan farþegaflutninga með flugi, verið hærri að meðaltali á tímabilinu 2012-2018 en í viðskiptahagkerfinu í heild. Þannig var arðsemi eigin fjár að meðaltali 19% í ferðaþjónustu en á sama tímabili var hún 14% í viðskiptahagkerfinu í heild. 

Árið var erfitt fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki þannig að það er ekki mikið borð fyrir báru. 

Vinnumarkaður

Íslenskur vinnumarkaður er lítill, atvinnuþátttaka mikil og atvinnuleysi lágt í alþjóðlegum samanburði. Vöxtur í ferðaþjónustu kom á besta tíma í efnahagslægð eftir efnahagshrunið 2008 þannig að svigrúm fyrir öflugan vöxt mestan hluta síðasta áratugar var til staðar. Á tímabilinu eftir 2009 jókst framleiðsla í ferðaþjónustu úr 3,5% af VLF í 8,6% 2017 (nýjustu tölur) og þegar líða tók á var fyrirséð að eftirspurn eftir vinnuafli yrði fljótt meiri en innlent framboð leyfði.

Á árunum 2009-2011 var atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu (HBS) um 9% en utan þess um 6,5%. Árin þar á eftir minnkaði atvinuleysið hratt og á árinu 2018 var það komið niður í 2,6% á HBS en 2,4% utan þess. Í fyrra hækkar það lítillega milli ára og var um 3,6% á landinu öllu. Í spám er gert ráð fyrir að atvinnuleysi verði 4% í ár.

Erlent vinnuafl

Án erlends vinnuafls hefði vöxtur í greininni og þar með hagvöxtur ekki orðið jafnmikill og raun bar vitni. Rétt er að hafa í huga að eftirspurn eftir erlendu vinnuafli var mismunandi milli atvinnugreina í ferðaþjónustu, ekki síst vegna mismunandi vægis erlendra ferðamanna í viðskiptamannahóp þeirra. Það skiptir líka máli hversu hreyfanlegt vinnuaflið er á milli atvinnugreina og geira hagkerfisins, stig framleiðslugetunnar skiptir líka máli.  Vart þarf að benda á að fjölmargar aðrar atvinnugreinar hafa mikinn beinan hag af viðskiptum við ferðamenn, s.s. fyrirtæki í verslunarrekstri og margvíslegri þjónustu..

Upplýsingar um hlutfall erlends starfsfólks innan atvinnugreina mætti sundurgreina með mun meiri nákvæmni en nú er gert. Til dæmis mætti draga sérstaklega fram hlutfall erlends starfsfólks í farþegaflutningum með flug og rekstur gististaða. Það sama gildir um veitingastaði. 

Fjöldi starfsmanna á vinnumarkaði í fyrra er um 200 þúsund um fimmtungur af þeim er af erlendum uppruna, um 40 þúsund. Tölur flokkaðar á atvinnugreinar eru til fyrir árið 2018 og þá var vægi innflytjenda um 19% af heildarfjölda á vinnumarkaði.

Tæplega 5 þúsund starfsmanna störfuðu við flugrekstur eða um 2% af vinnumarkaði alls  – um 10% starfsmanna eða um 480 voru með erlendan bakgrunn, það er um 0,2% af heildarfjölda starfa í landinu. Um 4 þúsund störfuðu við skipulagningu ferða, þar var vægi erlendra starfsmanna 31% eða um 1.200 störf sem eru um 0,6% af fjölda starfa alls.

Flestir innflytjendur eða íbúar með erlendan bakgrunn starfa í hótel- og veitingageiranum, rúmlega 7 þúsund manns. Það eru um 42% af öllum starfsmönnum í greininni. Fjöldi starfa í hótel- og veitingageiranum er um 8,6% af störfum alls þannig að hér er vægi innflytjenda um 3,6% af störfum alls í landinu. 

Rétt er að hafa í huga að um 35% viðskiptavina fyrirtækja í veitingaþjónustu eru erlendir ferðamenn, um 10% eru Íslendingar á ferðalagi um landið. Eftirspurn á heimamarkaði (e. from non-tourism sources) er enn stærsti „kúnnahópur“ fyrirtækja í veitingaþjónustu.

Starfsmenn með erlendan bakgrunn er líka að finna í öðrum atvinnugreinum. Þannig störfuðu um 4.500 innflytjendur í byggingariðnaði, tæplega 3 þúsund í fiskvinnslu og um 4 þúsund í heild- og smásöluverslun. Af þessu má sjá að erlenda starfsmenn er víða að finna í atvinnulífinu.

Íslendingar eru vanir því að samfara góðærum í sjávarafla og uppbyggingu t.a.m. á raforkukerfum eða öðrum stórum mannvirkjum fjölgi erlendu starfsfólki sem leggur hönd á plóg á litlum vinnumarkaði. Samkvæmt Vinnumálastofnun stendur þessi hópur verr að vígi þegar tekur að kólna í hagkerfinu. Sumir fara aftur úr landi en aðrir kjósa að setjast hér að og þá er mikilvægt að horfa til starfsþjálfunarúrræða og ýta undir menntun.  Raunfærnimat er mikilvægt tæki til að auðvelda íbúum af erlendum uppruna að þróast áfram í starfi og fá hæfni metna í námi og starfi.  

SAF hafa talað fyrir nauðsyn þess að byggja og treysta brýr á milli skóla og atvinnulífs til að efla samstarf um hagnýtingu þekkingar til að styðja við þróttmikið atvinnulíf. Í nýrri úttekt sem OECD birti haustið 2019 er sérstaklega bent á misræmi á milli menntunar starfsmanna og færniþörf atvinnulífsins. Þar er bent á að bæði sé töluverður skortur á starfsfólki með mikla menntun og færni og á sama tíma sé algengara á Íslandi en á öðrum Norðurlöndum að starfsfólk sé með meiri menntun og hæfni en kallað er eftir í þeim störfum sem þeir sinna.  

Á umliðnum áratug var það eftirspurn erlendra ferðamanna sem lagði sitt af mörkum við að endurreisa lífskjörin hér á landi – þar lögðu íbúar af erlendum uppruna sitt af mörkum – þeir komu til að vinna og sækjast eftir betri lífskjörum. Samtök ferðaþjónustunnar líta ekki á það sem sjálfsagðan hlut, það er okkar skylda eins og samfélagsins í heild að umgangast íbúa af erlendum uppruna af virðingu.

Ferðaþjónusta endurheimtir lífskjörin

Vegna smæðar landsins byggjast lífskjör hér á landi á útflutningi. Þannig hefur yfir langan tíma verið gott samband á milli útflutnings, landsframleiðslu og lífskjara hér á landi. Hagvaxtarárangur á liðnum áratug má rekja til útflutnings á ferðaþjónustu. Hann var svo sannarlega hvorki fyrirsjáanlegur né sjálfgefinn. Íslendingar vilja státa sig af góðum lífkjörum í samanburði við önnur lönd. Í umræðunni hér á landi er stundum látið í veðri vaka að ferðaþjónusta skili ekki nægum ábata til landsmanna. Samkvæmt kaupmáttarleiðréttri landsframleiðslu á mann kemur fram að lífskjör hafa aldrei verið betri. Mælikvarðinn er ekki fullkominn en gefur okkur vísbendingu.

Myndin sýnir að Ísland var í 13. sæti meðal OECD-ríkja um aldamótin, á árinu 2005 hækkar Ísland upp í 9. sæti. Áhrif fjármálakreppunnar koma fram í mælingunni 2010 þegar Ísland fellur í 14. sæti  yfir landsframleiðslu á mann. Á því ári nær hins vegar þjóðarbúskapurinn vopnum sínum og efnahagsbatinn skilar sér ótvírætt í tekjum á mann, strax árið 2015. Tölur fyrir árið 2018 sýna að Ísland er í 6. sæti yfir tekjur á mann. Það gerðist á vaxtarskeiði ferðaþjónustunnar.

Af Norðurlöndunum sker Noregur sig úr, Norðmenn voru í 2. sæti á fyrri hluta aldarinnar en í 4. sæti á þeim seinni. Á árinu 2013 eru tekjur Íslands rúmlega 12% undir meðaltali  á hinum Norðurlöndunum en staða Íslands var 2% yfir meðaltalinu 2018. Sama ár voru tekjur Íslands 8,8% hærri en meðaltekjur á hinum Norðurlöndunum án Noregs.

Nú er útlit fyrir samdrátt í efnahagslífinu og mikilvægt að verja árangur undanfarinna ára. Í stóru myndinni er það svo að það eru arðbærar/sjálfbærar atvinnugreinar sem draga að vinnuafl, aðföng og uppbyggingu innviða og búa til fjölbreytt og blómleg samfélög sem gaman er að heimsækja og eftirsótt að búa í. Mikilvægt er að finna einhvers konar bestun fyrir alla aðila svo Íslendingar geti áfram státað af góðum lífskjörum í samanburði við aðrar þjóðir.  

Atvinnustefna

Ferðaþjónusta sem atvinnugrein eins og aðrar atvinnugreinar í útflutningi snýst ekki bara um frammistöðu fyrirtækja heldur er það í raun umgjörð samfélagsins í heild sem ræður hag- og farsældinni þegar upp er staðið. Ef varan „áfangastaðurinn“ er í langtímaferð hafa stjórnvöld skyldum að gegna, ekki bara þegar kemur að augljósum þáttum eins innviðauppbyggingu og samkeppnishæfu rekstrarumhverfi heldur ekki síst þegar kemur að viðhorfi til atvinnugreinarinnar og ákvarðanatöku um að gera það sem þarf að gera. Fyrir ferðaþjónustu er ekki nóg að selja einungis flug til landsins. Hún er að selja vöru sem kallar á öruggar samgöngur, rafmagn, fjarskipti/sítengingar skipta öllu máli í dag. Kalda og heita vatnið er sérstaðan og stundum er það svo að eignarhald getur verið flókið en þá þarf umgjörðin að vera skýr. Heildstæð „vara – ferðasaga“ er löng virðiskeðja, teymisvinna, sem leggst, lag fyrir lag, í ferð sem ferðamenn/viðskiptamennirnir meta út frá öryggi, frumleika, ferskleika og fagmennsku. Gott orðspor skapar verðmæta viðskiptatryggð til lengri tíma litið.

Framboð af menningar- og upplifunarþjónustu í heiminum fer stöðugt vaxandi og eftirspurnin er dýnamísk og getur færst til og breyst hratt vegna ótal þátta. Það þarf stöðugt að huga að því hvernig áfangastaðurinn, vörumerkið, stenst samanburð við aðra áfangastaði. Alþjóðleg markaðssetning er ekki auðveld viðureignar, það kallar á rannsóknir þar sem dregin er upp glögg og greinileg mynd af stöðunni hverju sinni.  

Ábyrg ferðaþjónusta

Ferðaþjónustan var sannarlega minnt á það á síðasta ári hve mikil áhrif veðrið getur haft á atvinnurekstur í landinu. Reglulega heyrðust úr viðtækjunum: ekkert  ferðaveður, flug fellt niður og viðvaranir í öllum regnbogans litum. Langvarandi þurrkar á Suðurlandi, samfelld vætutíð á Austurlandi, aurskriður fyrir norðan. Undir lok árs minntu náttúruöflin rækilega á sig með aukinni skjálftavirki og kvikusöfnun á Reykjanesinu.

Hamfarahlýnun, minningarathöfn um jökul sem var og Greta Thunberg voru meginstefin í þjóðfélagsumræðunni á nýliðnu ári. Loftslagsmál og þær miklu veðurfarsbreytingar minntu okkur á þær áskoranir sem við  eigum í vændum. Á þessar raddir þarf að hlusta og þarf greinin að setja sér metnaðarfull markmið þegar kemur að loftslagsmálum, orkuskiptum og öryggismálum. Sjaldan er ein báran stök. Undir lok árs setti Wuhan-veiran svip sinn á íslenska ferðaþjónustu. Hún virðir engin landamæri í alþjóðavæddum heimi. Afbókanir frá annars vaxandi Asíumarkaði fóru að berast. Í byrjun mars hafði ekki tekist að koma í veg fyrir heimsfaraldur og því þegar orðið ljóst að útbreiðslan mundi hafa mikil neikvæð áhrif á íslenska ferðaþjónustu og efnahagslíf. 

Ferðaþjónustan sem atvinnugrein stendur á tímamótun eftir ótrúlegt vaxtarskeið síðasta áratugar. Það er eðlilegt að hafa áhyggjur til skamms tíma en þrátt fyrir að ómögulegt sé að spá fyrir um framtíðina er nokkuð víst að skakkaföllin ganga yfir. Í því ljósi gæti nú verið tækifæri til að horfa heildstætt yfir sviðið og móta þá framtíðarsýn sem við viljum að atvinnugreinin stefni að. Vinna við stefnumótun ríkisins í ferðamálum er langt komin á leið og miðar að sjálfbærum vexti í sátt við land og þjóð. SAF hafa verið einn af lykilaðilum í þeirri vinnu. Stefnan endurspeglar þá framtíðarsýn Sameinuðu þjóðanna sem birtist í Heimsmarkmiðunum og snýr að því að mynda jafnvægi milli efnahags, samfélags- og umhverfislegra þátta, lykilþátta að framtíðarvexti ferðaþjónustu á Íslandi.

Samhliða vinnu við stefnumótun hafa SAF komið að framkvæmdarhluta verkefnisins Ábyrg ferðaþjónusta” í gegnum samstarf við Íslenska ferðaklasann enda kallast meginþættir verkefnisins vel á við helstu stefnuþætti stjórnvalda í nýrri ferðamálastefnu auk aðgerða í loftslagsmálum og orkuskiptum sem SAF hafa tekið virkan þátt í á síðustu misserum. Jafnframt hefur umhverfisnefnd SAF fengið nýtt nafn og hlutverk sem Nefnd um samfélagsábyrgð, en þannig mun nefndin ekki einungis vinna að málefnum sem snúa að umhverfi og náttúru heldur einnig að innri málefnum sem snúa m.a. að samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja.

Öflugt menntakerfi þarf að taka mið af Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Samkeppn­is­hæfni fyrir­tækja og ríkja í dag veltur á því hversu sjálfbær og samfé­lags­lega ábyrg þau eru. Neyt­endur og samfé­lagið í heild gera sívax­andi kröfur um sjálf­bærni og samfé­lags­ábyrgð. Eitt af markmiðum Heimsmarkmiðanna er að tryggja  öllum jafnan aðgang að góðri menntun alla ævi.

Byggja þarf og treysta brýr á milli skóla og atvinnulífs til að efla samstarf um hagnýtingu þekkingar og til að námsframboð skólanna styðji við þróttmikið atvinnulíf. Í niðurstöðum úttektar sem OECD birti haustið 2019 um íslenskt menntakerfi er sérstaklega bent á misræmi í menntun starfsmanna og færniþörf atvinnulífsins. Þar var bent á að bæði sé töluverður skortur á starfsfólki með mikla menntun og færni og á sama tíma sé algengara á Íslandi en á öðrum Norðurlöndum að starfsfólk sé með meiri menntun og hæfni en kallað er eftir í þeirra störfum. Bent er á að við þessar aðstæður hefur atvinnulífið leitað til erlends vinnuafls sem oft og tíðum á erfitt með að samlagast íslenskum aðstæðum, m.a. vegna skorts á tungumálakunnáttu. Á sama tíma er mikilvægt að menntun fólks nýtist því í starfi og því þarf að leita leiða til að menntakerfið svari betur þörfum atvinnulífsins. Þannig er raunfærnimat mikilvægt tæki til að auðvelda fólki að þróast áfram í starfi og til að fá margvíslega hæfni metna inn í áframhaldandi nám. Með aðferðum raunfærnimats fær fullorðið fólk fyrri reynslu, svo sem þátttöku á vinnumarkaði eða í félagsstörfum, metna á móti námskrám eða hæfnikröfum starfa og getur þannig stytt sér leið að settu marki. Vinna þarf að því að samræma aðferðir raunfærnimats á milli kerfa og auka aðgengi einstaklinga að því samráði við hagsmunaaðila.

 

Sameiginlegt markmið atvinnugreinarinnar og stjórnvalda er að ferðaþjónusta verði til framtíðar arðsöm atvinnugrein sem stuðlar að bættum lífskjörum og farsæld á Íslandi, og verði þekkt fyrir sjálfbæra þróun, gæði og einstaka upplifun

Fram á veginn

Verkefnin hafa verið stór og brýn á árinu 2019 og framundan er stærsta áskorun sem íslensk ferðaþjónusta eins og heimurinn allur hefur staðið frammi fyrir. Ferðaþjónustan er vön að lenda í veðrabrigðum og rekstraraðilar þekkja vel sveiflur. Á eftir ofsaverðri kemur logn og loks sumar, þótt nú sé útlit fyrir að það verði seint á ferð.  

Nú þegar atvinnuhorfur versna almennt í heiminum er gott að minna sig á að ófyrirséðir hlutir hafi áður gerst og hagkerfi heimsins munu taka við sér á ný. COVID-19 mun hafa mikil alþjóðleg áhrif á ferðalög eins og alla almenna eftirspurn í bráð. Þá gildir að vera viðbúin þegar aftur rofar til. Þegar öllu er á botninn hvolft skiptir sjálfbær rekstur, sérstaða, orðspor, aðgengi, gæði og verð vörunnar á markaði mestu fyrir ferðaþjónustu eins og aðrar atvinnugreinar. Hún ræður neyslu og eftirspurn, og skapar verðmætin sem eru undirstaða viðhalds innviðanna sem eiga að tryggja verðmætasköpun og betri lífsgæði þjóðarinnar til framtíðar. 

Aðgerða er þörf til að verja stöðu ferðaþjónustunnar og tryggja að hún geti áfram verið grundvöllur verðmætasköpunar og bættra lífsgæða á Íslandi. Slíkar aðgerðir þurfa að vera skýrar og snarpar til að tryggja hraðan viðsnúning þegar jákvæðar aðstæður og tækifæri til vaxtar og uppbyggingar í ferðaþjónustu skapast á ný.