Ferðaþjónustudagurinn 2019 fór fram í Silfurbergi í Hörpu miðvikudaginn 2. október. Hundruð gesta úr ferðaþjónustu, atvinnulífi og stjórnmálum sóttu viðburðinn sem að þessu sinni var með örlítið öðru sniði en áður. Yfirskrift fundarins lagði áherslu á fagmennsku í ferðaþjónustu og framtíðarsýn fyrir atvinnugreinina, og nálguðust fyrirlesarar og viðmælendur umfjöllunarefnið frá ýmsum sjónarhornum. Hér að neðan má horfa á ferðaþjónustudaginn í heild.
Ávarp Bjarnheiðar Hallsdóttur formanns SAF
Formaður SAF lagði höfuðáherslu á samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar og rekstrarumhverfi fyrirtækja á Íslandi í ávarpi sínu á Ferðaþjónustudeginum 2019.
„Heilbrigðara rekstarumhverfi er forsenda sjálfbærni og styður þar að auki markmið um meiri fagmennsku og aukin gæði,“ sagði Bjarnheiður m.a. í ávarpi sínu. „Lækkun opinbers kostnaðar snýst því fjarri því eingöngu um fyrirtækin sjálf, heldur skapast þar með aðstæður fyrir þau að gera enn betur og skapa meiri verðmæti – sem svo auðvitað skila sér beina leið í ríkiskassann. Við erum með stórkostlega auðlind og frábæra vöru í höndunum, sem hefur alla möguleika á að leggja mikið til bæði hag- og velsældar Íslendinga um ókomna tíð, auðnist okkur að halda rétt á spilum.“ Ávarp Bjarnheiðar hefst þegar 2:30 mínútur eru liðnar í myndbandinu hér að ofan.
Gullhringur með Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur ferðamálaráðherra
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra ferðamála var erlendis á ferðaþjónustudaginn en brá sér í Gullhring með SAF í aðdraganda fundarins. Ísland skartaði sannkölluðu þjóðhátíðarveðri þennan dag en ráðherrann lét það ekki aftra sér frekar en aðrir ferðamenn á svæðinu.
Rætt var um fjölbreytt málefni er tengjast ferðaþjónustu á Íslandi, enda af nógu að taka. Meðal annars fór ráðherrann yfir uppbyggingu innviða, stefnumótun til framtíðar og þá nýútkomna framtíðarsýn fyrir greinina til 2030, hvernig við þurfum að horfa á verðmætasköpun umfram fjölda í allri nálgun, mikilvægi þess að greinin þróist í sátt við samfélag og umhverfi. Gullhringur með ferðamálaráðherra hefst þegar 20 mínútur eru liðnar í myndbandinu hér að ofan.
Aðalfyrirlesari dagsins, Ray Salter
Aðalfyrirlesari ferðaþjónustudagsins 2019 var Ray Salter, ráðgjafi hjá TRC New Zealand og fyrrverandi ráðuneytisstjóri í ferðamálaráðuneyti Nýja-Sjálands. Salter hefur starfað við ferðaþjónustu og umhverfismál í 30 ár og hefur yfirgripsmikla reynslu af stefnumótun, skipulagningu, þróun, rannsóknum og fjárfestingu í greininni. Frá 2011 hefur hann starfað við ráðgjöf varðandi stefnumörkun í ferðamálum og sjálfbærni í umhverfismálum sem tengjast ferðamannastarfsemi. Salter þekkir vel til uppbyggingar og áskorana ferðaþjónustu á Íslandi en undanfarin tvö ár hefur hann, ásamt Eflu, starfað með stjórnvöldum hér á landi að uppbyggingu Jafnvægisáss ferðamála sem birtur var í vor. Hann er einnig ráðgjafi stjórnvalda í vinnu við aðgerðabundna stefnumótun í ferðamálum til 2025. Fyrirlestur Salter hefst þegar 31:25 mínútur eru liðnar í myndbandinu hér að ofan.
Eru markaðsmál ferðaþjónustulandsins Íslands í góðu lagi?
Í fyrsta umræðupanel dagsins ræddu þau Arnheiður Jóhannsdóttir frá Markaðsstofu Norðurlands, Ásberg Jónsson frá Nordic Visitor, Guðmundur Arnar Guðmundsson frá Markaðsakademíunni og Pétur Þ. Óskarsson frá Íslandsstofu um það hvort markaðsmál ferðaþjónustulandsins Íslands væru á réttri leið eða hvort ástæða væri til að breyta áherslum.
Ásberg benti m.a. á að Ísland hefði farið dalandi á leitarvélum undangengið ár og nauðsynlegt væri að leggja frekara fjármagn í markaðsstarf til að tryggja áframhaldandi vöxt. Guðmundur beindi sjónum að því sem fyrirtækin geta sjálf gert hvert og eitt með áherslu á sérstöðu sína í stað þess að bíða eftir því að allt sé gert fyrir þau í gegnum miðlægt markaðsstarf. Panellinn hefst þegar 1:01:55 mínútur eru liðnar í myndbandinu hér að ofan.
Hvaða máli skiptir rekstrarumhverfi fyrirtækjanna?
Ásta Sigríður Fjeldsted frá Viðskiptaráði, Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, Birna Ósk Einarsdóttir frá Icelandair og Ásdís Kristjánsdóttir frá Samtökum atvinnulífsins ræddu hvaða breytinga væri þörf á rekstrarumhverfi fyrirtækja til að auka samkeppnishæfni.
„Þetta er ekki flókið,“ sagði Óli Björn, „við eigum að lækka skatta og einfalda regluverk. Mér finnst stundum eins og ég sé í einu hlutverki eingöngu niðri við Austurvöll og það er að reyna að koma í veg fyrir að skattar hækki, í staðinn fyrir að leiða lækkun skatta og einföldun regluverks. Staðreyndin er sú að meirihluti þingmanna lítur á fyrirtæki sem sérstakt hlaðborð fyrir tekjur ríkissjóðs, lítur svo á að tekjustofnar ríkissjóðs séu vannýttir ef allt er ekki skrúfað í botn.“ Panellinn hefst þegar 1:28:35 mínútur eru liðnar í myndbandinu hér að ofan.
Fagmennska í ferðaþjónustu: Frasi eða verðmæt framtíðarsýn?
Ásta Kristín Sigurjónsdóttir frá Íslenska ferðaklasanum, Ingibjörg Ólafsdóttir frá Hótel Sögu, Steingrímur Birgisson frá Höldi og Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri ræddu hvort ákall um fagmennsku í ferðaþjónustu væri frasi eða mikilvæg sýn fyrir framtíð greinarinnar.
Ferðamálastjóri sagði að fagmennska í ferðaþjónustu hefði aukist mikið á undanförnum árum og myndi halda áfram að aukast ef áhersla væri áfram lögð á það. Steingrímur benti á að því miður væru enn of mörg fyrirtæki í greininni sem ekki legðu nægilega áherslu á fagmennsku og gæði og að stjórnvöld og stofnanir yrðu að haga regluverki þannig að það ýtti undir aukna fagmennsku en drægi ekki úr henni. Panellinn hefst þegar 1:56:05 mínútur eru liðnar í myndbandinu hér að ofan.
Bakþankar Halldórs Benjamíns Þorbergssonar
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sló lokatóninn á ferðaþjónustudeginum 2019 og lagði út af þeim áskorunum sem fólk í ferðaþjónustu hefði tekist á við á árinu.
Halldór lagði út af reynslu sinni af félagsfundi SAF vegna kjarasamninga og boðaðra verkfalla í byrjun mars 2019. Hann ræddi um sterka upplifun sína af samstöðu og sjálfstrausti atvinnugreinar þar sem allir þekkja að árangur byggist á þrotlausri vinnu og uppbyggingu yfir langan tíma. Halldór tók undir orð formanns SAF um að rétta leiðin til að bregðast við ógnum í greininni sé að stíga fram og auka fagmennsku og gæði, en að til þess þurfi stjórnvöld að bæta rekstrarumhverfi og bæta samkeppnishæfni íslenskrar ferðaþjónustu. Bakþankar Halldórs hefjast þegar 2:22:45 mínútur eru liðnar í myndbandinu hér að ofan.