Skip to content

Menntun er lykilforsenda þess að Ísland mæti áskorunum framtíðarinnar sem felast í stöðugum samfélags- og tæknibreytingum og skapi úr þeim ný tækifæri, að Ísland verði eftirsóknarverður áfangastaður að heimsækja sem og eftirsóknarverður áfangastaður til búsetu, náms og vinnu.

SAF láta hæfni, mennta- og fræðslumál sig miklu máli varða og leggja sífellt aukna áherslu á fræðslumál í starfi sínu, enda er hæfni stjórnenda og starfsmanna forsenda aukinnar verðmætasköpunar í greininni. Mikilvægt er að auka arðsemi og samkeppnishæfni fyrirtækja í ferðaþjónustu og auk þess hafa áhrif á gildismat og viðhorf stjórnenda og starfsfólks til hæfniuppbyggingar, símenntunar og þjálfunar.

SAF hafa  leitt vinnu frá árinu 2017 í stýrihóp Hæfniseturs ferðaþjónustunnar sem vistað er sem verkefni hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins til ársins 2020.  Fjölbreyttur hópur hagaðila úr fyrirtækjum innan SAF og samstarfsaðila kemur að starfi Hæfniseturs ferðaþjónustunnar, auk þess sem Hæfnisetrið er í samstarfi við fræðsluaðila víða um land í verkefninu Fræðsla í ferðaþjónustu og framhaldsskóla og háskóla í tengslum við mótun formlegs náms í ferðaþjónustu á forsendum ferðaþjónustunnar.

Í kjölfar Covid-19 birti Hæfnisetur ferðaþjónustunnar samantekt með ýmsum hagnýtum lausnum fyrir ferðaþjónustuna í fræðslumálum. Má þar m.a. nefna ýmis verkfæri, hugmyndir að námskeiðum og góð ráð í þeim aðstæðum sem upp eru komnar í tengslum við aðstæður í þjóðfélaginu. 

 

Hæfnisetur ferðaþjónustunnar var sett á stofn árið 2017 á grundvelli skýrslu Stjórnstöðvar ferðamála sem stjórnvöld og Samtök ferðaþjónustunnar ýttu úr vör um hæfni í ferðaþjónustu. Um er að ræða samstarfsverkefni aðila vinnumarkaðarins, fræðsluaðila og stjórnvalda um heildstæðar lausnir og úrbætur til að auka hæfni og fagmennsku starfsfólks í ferðaþjónustu á Íslandi. Hæfnisetrið er fjármagnað af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu til ársloka 2020. Verkefnið er vistað hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins ehf. (FA) sem er í eigu aðila vinnumarkaðarins. María Guðmundsdóttir, fræðslustjóri SAF, er formaður Hæfniseturs ferðaþjónustunnar.

Hlutverk Hæfnisetursins er að bjóða fyrirtækjum upp á kortlagningu á þörfum fyrir fræðslu í samstarfi við fræðsluaðila, ráðleggja fræðsluaðilum um fræðsluaðferðir og markaðssetningu fræðslu, leggja til námsefni, þar á meðal rafræna fræðslu, og þróa aðferðir við að meta árangur af fræðslu á rekstur og starfsánægju í fyrirtækjum. Þá hefur Hæfnisetrinu verið falið að af aðilum vinnumarkaðarins að koma með tillögur að stefnu fyrir formlegt nám í ferðaþjónustu. Allt starf Hæfnisetursins er unnið á forsendum ferðaþjónustunnar.

Verkefni Hæfnisetursins – efling menntunar og gæða í greininni

Verkefni Hæfnisetursins hafa verið á tvennum vígstöðvum, sem þó tengjast með ýmsum hætti. Í fyrsta lagi hefur Hæfnisetrið unnið að verkefninu Fræðsla í ferðaþjónustu sem miðar að því að auka hæfni starfsmanna í greininni með ýmsum hætti, oftast í samvinnu við viðurkennda fræðsluaðila.

Í öðru lagi hefur Hæfnisetrið lagt mikla vinnu í að ná fram viðhorfum og skoðunum ferðaþjónustunnar um nám í formlega skólakerfinu í því skyni að hafa áhrif á námsframboð skólakerfisins til handa greininni. Á árinu gaf Hæfnisetrið út skýrsluna Hæfni er grunnur að gæðum, þar sem gerð er grein fyrir áherslum greinarinnar í námsframboði skólakerfisins. Um 120 manns tóku þátt í gerð skýrslunnar, frá fyrirtækjum, ýmsum fræðsluaðilum, skólakerfinu og stjórnsýslunni. Ráðherrar ferðamála og menntamála skrifuðu ávarpsorð í skýrsluna þar sem farið var lofsamlegum orðum um framtakið og sömu ráðherrar fluttu ávörp á útgáfufundi skýrslunnar. Síðla árs 2019 leiddi Hæfnisetrið fyrstu aðgerðir í verkefninu sem miða að því að bjóða heilsteypt nám í ferðaþjónustu, með þátttöku fræðsluaðila á öllum skólastigum, frá framhaldsfræðslu til háskólastigsins.

Meginverkefni Hæfnisetursins:

  1. Koma á tengslum fræðsluaðila og fyrirtækja í verkefninu Fræðsla í ferðaþjónustu
  2. Þróa rafræn verkfæri til að nota í fræðslu
  3. Meta þarfir ferðaþjónustunnar fyrir breytt eða nýtt nám í formlega skólakerfinu

Tilraunaverkefnið Fræðsla í ferðaþjónustu

Árið 2019 hélt Hæfnisetrið áfram samstarfi við fræðsluaðila um heimsóknir til fyrirtækja. Á árinu bættust þrír fræðsluaðilar í hópinn við þá fimm sem fyrir voru. Markmið heimsóknanna er að koma á markvissri fræðslu innan ferðaþjónustufyrirtækja og meta árangurinn af henni. Verkefnið felur í sér greiningu á fræðsluþörfum fyrirtækis við gerð fræðsluáætlunar, eftirfylgni og mat á árangri.

Að undirbúningi fræðsluferlis koma fræðsluaðili, Hæfnisetrið og fyrirtæki sem gera með sér þríhliða samstarfssamning. Fræðsluaðili sér um greiningu, áætlun og fræðslu í samvinnu við fyrirtækið. Reglulega í ferlinu er árangurinn af starfinu metinn.

Á árinu skrifaði Hæfnisetrið undir samstarfssamninga við fyrirtæki í ferðaþjónustu sem taka til 22 fyrirtækja í ferðaþjónustu og tæplega 900 starfsmanna þeirra. Farið var í 59 heimsóknir á árinu.

Frá upphafi hafa Hæfnisetrið og fræðsluaðilar farið í 174 heimsóknir og undirritaðir hafa verið 94 samningar um Fræðslu í ferðaþjónustu.

Fjárfesting í árangursmiðaðri fræðslu skilar árangri í auknum gæðum, framleiðni og starfsánægju og minni starfsmannveltu, fjarveru og rýrnun

Verkfærakista fyrir stjórnendur ferðaþjónustufyrirtækja

Á heimasíðu Hæfnisetursins má finna fjölbreytt verkfæri fyrir stjórnendur til að auðvelda þeim að koma á fræðslu innan fyrirtækja og ýmsa mælikvarða til að meta árangurinn af henni. Efnið er hannað, þróað og aðlagað að þörfum greinarinnar og opið öllum til afnota. Þar má jafnframt finna ýmis hagnýt námskeið sem eru í boði fjölbreyttra fræðsluaðila um land allt.

Fagorðalisti ferðaþjónustunnar

Hann inniheldur lista yfir algeng orð sem notuð eru á fimm mismunandi sviðum ferðaþjónustunnar. Hægt er að velja orðalista fyrir móttöku, þrif og umgengni, eldhús, afþreyingu og þjónustu í sal. Fagorðalistinn geymir jafnframt 50 algenga frasa sem notaðir eru bæði af gestum og starfsmönnum á veitingastöðum. Orðin eru íslensku, ensku og pólsku, og hægt er að hlusta á framburð þeirra á íslensku á vefnum https://100.haefni.is/.

Íslensk málnefnd veitti Hæfnisetri ferðaþjónustunnar og Samtökum ferðaþjónustunnar viðurkenningu fyrir fagorðalista ferðaþjónustunnar, stafrænt verkfæri á heimasíðu Hæfnisetursins. Fagorðalistanum er ætlað að auðvelda samskipti á vinnustað og auka íslenskan orðaforða starfsfólks. 

Sveinn Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og Hæfniseturs ferðaþjónustunnar, og María Guðmundsdóttir, fræðslustjóri SAF og formaður stjórnar Hæfnisetursins, veittu viðurkenningunni viðtöku.

Árangur fræðslu – mælikvarðar

Seinni hluta árs 2019 fóru fyrstu tölur um áhrif fræðslu á rekstur ferðaþjónustufyrirtækja að birtast og voru þær mjög hvetjandi fyrir starf Hæfnisetursins.

Stjórnendur sem fjárfesta í fræðslu þurfa að vita hvaða árangri þeir vilja ná. Á að auka starfsánægju, minnka starfsmannaveltu, fækka kvörtunum, auka gæði þjónustu eða annað? Til að meta árangurinn af fræðslunni þarf að taka stöðuna í upphafi og bera síðan saman við stöðuna að fræðslu lokinni. Tilgangur mats er að mæla áhrif þjálfunar og fræðslu á frammistöðu starfsfólksins á vinnustaðnum. Á heimasíðu Hæfnisetursins er hægt að nálgast handhæg verkfæri til að meta árangur:

  • Starfsánægjukönnun
  • Skráning kvartana/hróss
  • Hulduheimsóknir

Starfsánægjukönnunin er á þremur tungumálum, íslensku, ensku og pólsku, og geta fyrirtæki nýtt spurningarnar til að útbúa sína eigin spurningakönnun. Fyrirtæki sem eru í samstarfi við Hæfnisetrið í verkefninu Fræðsla í ferðaþjónustu fá könnunina rafrænt.  Sjá nánar árangursmælikvarða neðst í verkfærakistu Hæfnisetursins.

Í ársbyrjun 2018 kallaði Hæfnisetur ferðaþjónustunnar til víðtæks samstarfs hagaðila í ferðaþjónustu, stjórnenda og starfsfólks fyrirtækja, fulltrúa aðila atvinnulífsins, auk stjórnenda og starfsfólks skóla og fræðsluaðila um fyrirkomulag náms í ferðaþjónustu. 

Markmiðið var að miðla reynslu, fá nýjar hugmyndir, koma skoðunum og tillögum á framfæri. Niðurstaðan úr þessari vinnu er innlegg í mótun mennta- og hæfnistefnu ferðaþjónustunnar sem birt var í skýrslunni Hæfni er grunnur að gæðum sem kynnt var 20. maí 2019. Stýrihópur á vegum Hæfnisetursins vinnur nú að útfærslu hugmynda um uppbyggingu heildstæðs náms í ferðaþjónustu.

Hér má sjá nánar um starfsemi Hæfniseturs ferðaþjónustunnar í  ársskýrslu 2019. 

SAF stóðu fyrir ýmsum viðburðum um fræðslu- og menntamál á árinu í samstarfi við aðra aðila. 

Okkar bestu hliðar. Samtök ferðaþjónustunnar og Hæfnisetur ferðaþjónustunnar stóðu fyrir menntamorgnum bæði á Akureyri og Reykjavík með það að markmiði að vekja athygli stjórnenda og starfsfólks fyrirtækja á mikilvægi fræðslu og símenntunar í ferðaþjónustu, auk þess að auka samtal við fræðsluaðila um þarfir greinarinnar og hlusta á raddir félagsmanna. Á fundunum var m.a. fjallað um ýmis verkfæri í verkfærakistu Hæfnisetursins, fjallað um mikilvægi fræðslu fyrir stjórnendur og millistjórnendur og stöðu erlends starfsfólks í ferðaþjónustu.

Menntamorgnar. Samtök atvinnulífsins stóðu ásamt SAF og aðildarfélögum í Húsi atvinnulífsins fyrir menntamorgnum fyrir aðildarfélaga sína þar sem áherslan var lögð á rafræna fræðslu og þau tækifæri sem skapast til viðbótar hefðbundinni fræðslu. Auk þess var fjallað um námsumhverfi og námsefni í rafrænni fræðslu og áskoranir því tengdu, tæknibúnað og fjármögnun.

Menntadagur atvinnulífsins

Sköpun í alls kyns myndum var til umfjöllunar á Menntadegi atvinnulífsins sem fór fram í Hörpu 5. febrúar. Rúmlega 300 manns úr atvinnulífinu tóku þátt og enn fleiri horfðu á beina útsendingu frá fundinum.

Upptökur af erindum frummælenda eru aðgengilegar í Sjónvarpi atvinnulífsins á vef SA ásamt erindum úr málstofu sem fór fram eftir kaffihléi. Starfsmenntasjóðir og ýmsir fræðsluaðilar kynntu starfsemi sína í kaffihléi Menntadagsins.

Menntadagurinn er árlegur viðburður, að honum standa Samtök atvinnulífsins, , Samtök ferðaþjónustunnar, Samorka, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu.

Menntaverðlaun atvinnulífsins voru veitt fyrirtækjum sem skara fram úr í fræðslu- og menntamálum. Orkuveita Reykjavíkur er Menntafyrirtæki ársins og Samkaup Menntasproti ársins. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, afhentu verðlaunin. Skapti Örn Ólafsson, upplýsingafulltrúi SAF, stýrði pallborðsumræðum við verðlaunahafa í kjölfar verðlaunaafhendingarinnar.

Raunfærnimat – staðfesting á færni skiptir alla máli

Tilraunaverkefni þar sem raunfærnimat fer fram á móti hæfniviðmiðum starfa. Hæfniviðmið starfa eru mótuð með atvinnulífinu og síðan er metið hvernig einstakir starfsmenn standa gagnvart þeim. Þar sem nægileg hæfni eða þekking er ekki til staðar fer fram þjálfun í þeim þáttum á vinnustað og í kjölfarið fær starfsmaðurinn staðfestingu á sinni hæfni. 

Markmið verkefnisins er að:

  • þróa aðferðafræði við mat og staðfestingu á færni sem aflað hefur verið utan formlega skólakerfisins en nýtist á vinnumarkaði
  • þróa leiðir til færniuppbyggingar, m.a. með starfsþjálfun í kjölfar raunfærnimats
  • leggja grunn að sjálfbæru kerfi sem nýtur trausts atvinnulífs og fræðsluaðila

Tilraunaverkefni

Unnið er með fimm störf en tvö eftirtalin tengjast ferðaþjónustu, starf í móttöku á gististöðum og þjónusta í sal. Þátttaka fyrirtækja í ferlinu er mikilvæg og eru myndaðir stýrihópar með aðkomu fulltrúa þeirra. Fyrirtækin sem taka þátt í tilrauninni fyrir þessi störf eru KEA hótel, Strikið-Bryggjan og Icelandair-hótel. Matið fer fram á Akureyri og Símey, Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar, heldur utan um framkvæmdina.

Verkefninu er stýrt af Fræðslumiðstöð atvinnulífsins í samstarfi við Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands. Verkefnið er styrkt af Fræðslusjóði. Nánari upplýsingar hér.

Matvæla- og veitingasvið IÐUNNAR er samstarfsvettvangur fyrirtækja og starfsmanna á sviði hótel- og matvælagreina. Aðild að matvæla- og veitingasviði eiga SAF, Samtök iðnaðarins (SI) og MATVÍS. Hlutverk og megintilgangur matvæla- og veitingasviðs er að stuðla að bættri menntun og hæfni starfsmanna í hótel- og matvælagreinum og vinna að auknum gæðum og framleiðni fyrirtækjanna sem leiðir til betri samkeppnisstöðu þeirra og bættra lífskjara. Starfsemi sviðsins er m.a. fjármögnuð með endurmenntunargjaldi sem kveðið er á um í kjarasamningi og með sértekjum. 

Félagsmenn IÐUNNAR fá verulegan afslátt af námskeiðum á vegum sviðsins. Námskeið fara ýmist fram í Hótel- og matvælaskólanum, Verkmenntaskólanum á Akureyri eða á vinnustöðum. Forsvarsmenn fyrirtækja óska í auknum mæli eftir sérsniðnum námskeiðum fyrir þeirra fyrirtæki og þarfir. Reglur um endurgreiðslur og styrki til félagsmanna er að finna á vef IÐUNNAR.

Samstarfsverkefni SAF og IÐUNNAR

Starfsgreinaráð matvæla-, veitinga- og ferðaþjónustugreina 2019-2023

Starfsgreinaráð eru, hvert á sínu sviði, ráðherra til ráðgjafar um starfsnám á framhaldsskólastigi. Hlutverk þeirra er m.a. að gera tillögur um almenn markmið náms, skilgreina þarfir fyrir kunnáttu og hæfni og gera tillögur um lokamarkmið náms. Starfsgreinaráðið er skipað aðalmönnum og varamönnum sem tilnefndir eru af Samtökum atvinnulífsins, Alþýðusambandi Íslands, Félagi íslenskra framhaldsskóla og Kennarasambandi Íslands. 

Formenn starfsgreinaráða sem eru 12 talsins skipa síðan sérstaka starfsgreinanefnd. Formaður starfsgreinaráðs matvæla-, veitinga- og ferðaþjónustugreina er Sólborg Lilja Sigurbjörnsdóttir. Auk hennar eiga SAF einn aðalmann og tvo aukamenn í ráðinu. Sjá nánar hér

Norræna nemakeppnin 2019 

Norræna nemakeppnin í matreiðslu og framreiðslu var haldin í Hótel- og veitingaskólanum í Stokkhólmi dagana 26.–27. apríl 2019. Íslensku keppendurnir í  matreiðslu voru þeir Gabríel Kristinn Bjarnason, nemi á Radisson SAS, Hótel Sögu, meistari hans var Ólafur Helgi Kristjánsson, og Wiktor Pálsson, nemi á Radisson SAS, Hótel Sögu, meistari hans er Sigurður Helgason. Í framreiðslu kepptu þau Fanney Rún Ágústsdóttir, nemi á Bláa lóninu, meistari hennar var Styrmir Örn Arnarson, og Guðjón Baldur Baldursson, nemi á VOX, Hilton Nordica, meistari hans var Ólöf Kristín Guðjónsdóttir. Íslensku keppendurnir í framreiðslu unnu til bronsverðlauna.

Raunfærnimat í matvæla- og veitingagreinum 

Starfsfólki í matvæla- og veitingagreinum sem hafa náð 23 ára aldri og eru með þriggja ára starfsreynslu stendur til boða að taka þátt í raunfærnimati á móti námskrám í matreiðslu, framreiðslu, bakaraiðn og kjötiðn. Markmiðið raunfærnimatsins er að meta starfsreynslu á móti verkefnum námskrár og gefa  áhugasömum tækifæri til að stytta nám sitt í skóla og á vinnustað. Töluverður fjöldi hefur nýtt sér þessa þjónustu á liðnum árum og reynslan er góð. Raunfærnimat í greinunum er reglulega í boði og áhugasömum er bent á að hafa samband við náms- og starfsráðgjafa IÐUNNAR. IÐAN bauð starfandi barþjónum og þernum raunfærnimat á móti hæfnikröfum starfa barþjóna og þerna. Verkefnið tókst vel og uppfylltu þátttakendur í verkefninu þau viðmið sem sett voru um hæfnikröfur í greinunum.

Vinnustaðanámssjóður 

Mennta- og menningarmálaráðuneytið úthlutaði í fyrsta sinn úr vinnustaðanámssjóðnum til fyrirtækja sem voru með nema á námssamningi haustið 2011. Ánægjulegt er hversu margir forsvarsmenn fyrirtækja í matvæla- og veitingagreinum hafa nýtt þetta framtak mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Frestur til að sækja um í sjóðinn var  19. nóvember sl. en á  árinu 2019  var samtals sótt um fyrir um 70% nema sem eru á námssamningi í matreiðslu og framreiðslu. Samtök ferðaþjónustunnar höfðu í fjöldamörg ár lagt áherslu á að þessi sjóður yrði settur á laggirnar.

Íslandsmót iðngreina 14.-16. mars 2019

Íslandsmót iðngreina fór fram dagana 14.– 16. mars 2019 í Laugardalshöllinni. Markmið Íslandsmótsins er að kynna fyrir ungu fólki og forráðamönnum þeirra iðn- og starfsnámsgreinar. Yfir keppnisdagana komu samtals um 7.000  grunn- og framhaldsskólanemar á keppnissvæðið. Í matvæla- og veitingagreinum var keppt í kjötiðn, bakaraiðn, framreiðslu og matreiðslu.

Áframhaldandi samstarf SAF og HÍ um starfsþróun í ferðaþjónustu 

Námsbraut í Land- og ferðamálafræði við Háskóla Íslands, Samtök ferðaþjónustunnar (SAF), Náms- og starfsráðgjöf Háskóla Íslands og Íslenski ferðaklasinn undirrituðu í febrúar samstarfssamning um eflingu starfsþróunar og vettvangsnáms í ferðaþjónustu.

Samningurinn byggir á samstarfi námsbrautarinnar og SAF frá 2015 í tengslum við námskeiðið Starfsþróun í ferðaþjónustu en hátt í 100 nemendur hafa í gegnum það fengið innsýn í störf og hæfnikröfur fyrirtækja í ferðaþjónustu.

SAF fagna áframhaldandi samstarfi um verkefnið og munum halda áfram þeirri mikilvægu brúarsmíði sem nauðsynleg er milli háskólasamfélagsins, rannsókna og atvinnulífsins.

Gerum færni innflytjenda sýnilega

Áskoranir og möguleikar í raunfærnimati er megininntak VISKA (Visible skills for adults) verkefnisins sem IÐAN fræðslusetur og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins unnu fyrir hönd mennta- og menningamálaráðuneytisins með styrk frá Erasmus+.  Um er að ræða þriggja ára stefnumótandi tilraunaverkefni (2017-2020). Menntavísindastofnun sá um rannsóknarþátt verkefnisins. SAF tóku þátt í baklandshóp um hvernig gera má færni innflytjenda sýnilega og hverjar áskoranir og möguleikar eru í raunfærnimati á móti störfum þessa hóps. Á Íslandi er vel virkt raunfærnimatskerfi til staðar, hins vegar hafa ekki allir sama aðgengi að kerfinu þ.m.t innflytjendur.

Lærdómur og helstu niðurstöður VISKA eru að það skiptir máli að hafa sterkt miðlægt gæðaeftirlit sem leggur grunn að trúverðugleika. Undirbúningur og þjálfun fagaðila er nauðsynleg með áherslu á menningarnæmi og  viðtalstækni þar sem túlkaþjónusta er notuð. Túlkar þurfa að hafa þekkingu á umræddu fagi hverju sinni. Hlutverk náms- og starfsráðgjafa skiptir sköpum í öllu ferlinu. Upplýsingum og aðgengi að íslensku menntakerfi og leiðum til að þróast í starfi er ábótavant og formfesta þarf tungumálastuðning, skoða þarf stefnumótun um íslenskunám innflytjenda og ábyrgð allra hagsmunaðila.

Raunfærnimat fyrir alla fellur vel að framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda 2020-2024 og lagt hefur verið til að niðurstöður VISKA-verkefnisins verði nýttar við framkvæmd áætlunarinnar. Mikilvægt er að vinna áfram með lærdóm af verkefninu í gegnum samstarf hagsmunaðila í því skyni að jafna tækifæri fólks og gera færni fólks með innflytjendabakgrunn sýnilega og meta hana. Með því má hvetja innflytjendur sem og aðra til áframhaldandi færniþróunar sem felur í sér ávinning fyrir allt samfélagið. Frekari upplýsingar er hægt að fá á https://viskaproject.eu/.

VISKA-teymið á Íslandi: Fjóla María Lárusdóttir (FA), Arnheiður Gígja Guðmundsdóttir (FA), Helen Gray (IÐAN) og Rakel Steinvör Hallgrímsdóttir (IÐAN)

Kynning á starfsemi Hæfniseturs
Hæfnisetrið kynnir starfsemi sína fyrir gestum aðalfundar SAF á Húsavík
19. mars 2019
Stjórnendur deila reynslu sinni
Frumsýning þriggja myndbanda þar sem stjórnendur innan fyrirtækja hjá SAF segja frá reynslu sinni af þátttöku í verkefninu Fræðsla í ferðaþjónustu
20. maí 2019
Hæfni er grunnur að gæðum
Skýrsla um formlegt nám í ferðaþjónustu kemur út.
26. september 2019
Arðsemi símenntunar
Málstofa um arðsemi í fjárfestingu í þjálfun og símenntun í fyrirtækjum (ROI). Fulltrúar Íslands í NVL stóðu að skipulagningu og undirbúningi fundarins í Húsi atvinnulífsins.
7. október 2019
Menntamorgunn - Millistjórnendur
Menntamorgunn ferðaþjónustunnar og umfjöllunarefni fundarins er fræðsla í ferðaþjónustu með áherslu á millistjórnendur og stjórnendafræðslu.
28. október 2019
Gæði og ábyrg ferðaþjónusta
Súpufundur í samstarfi Markaðsstofu Suðurlands, SAF og Hæfniseturs ferðaþjónustunnar á Hótel Örk, Hveragerði. Fjallað var um ábyrga ferðaþjónustu og þau verkfæri sem nýtast fyrirtækjum til að viðhalda gæðum og sjálfbærni til framtíðar.
20. nóvember 2019
Menntamorgunn - Rafræn fræðsla
Menntamorgnar atvinnulífsins – rafræn fræðsla. Fjallað var um hvað skiptir máli við framleiðslu á rafrænu efni, tæknibúnað, námsmat og fleiri þætti
4. febrúar 2020
Okkar bestu hliðar
Okkar bestu hliðar. Menntamorgun SAF og Hæfniseturs ferðaþjónustunnar þar sem fjallað var um erlent starfsfólk í ferðaþjónustu.
11. mars 2020
Skyndihjálp
Ný vefsíða Hæfnisetursins vegna COVID-19 fer í loftið með ýmsum hagnýtum lausnum s.s. rafrænum lausnum í fræðslumálum.
14. mars 2019
Fundur með ráðherrum á Grand Hótel
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamálaráðherra og Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra koma saman með ferðaþjónustunni á viðburði sem Hæfnisetrið og SAF boða til á Grand hóteli
17. maí 2019
Framtíðarskipan náms í ferðaþjónustu
Hæfnisetur ferðaþjónustunnar og SAF kynntu niðurstöður samtals atvinnulífs og menntakerfis um framtíðarskipan náms í ferðaþjónustu. Skýrslan, Hæfni er grunnur að gæðum, er innlegg atvinnulífsins í mótun mennta- og hæfnistefnu fyrir ferðaþjónustu. Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, og mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir ávörpuðu fundinn.
24. júní 2019
Orðin okkar á íslensku
Hæfnisetur ferðaþjónustunnar og Samtök ferðaþjónustunnar hljóta viðurkenningu Íslenskrar málnefndar fyrir kennsluvefinn „Orðin okkar á íslensku“ sem ætlað er að auðvelda erlendu starfsfólki íslenskan orðaforða og auðvelda samskipti á vinnustað.
4. október 2019
Menntamorgunn - Rafræn fræðsla
Menntamorgun atvinnulífsins – Fjallað var um leiðir til rafrænnar fræðslu og áskoranir sem henni fylgja.
24. október 2019
Kynning á myndbandi
Nýtt myndband kynnt um fræðslu í ferðaþjónustu
13. nóvember 2019
Menntamorgunn - Rafræn fræðsla
Menntamorgun atvinnulífsins – rafræn fræðsla. Fjallað var um námsumhverfi, námsefni, og helstu hindranir við innleiðingu fræðslu af þessu tagi.
22. janúar 2020
VISKA verkefnið - lokaráðstefna
Lokaráðstefna Evrópuverkefnisins VISKA ( Visible Skills of Adults). Þátttaka í pallborði um hvernig gera má færni innflytjenda sýnilega og hverjar áskoranir og möguleikar eru í raunfærnimati á móti störfum þessa hóps.
27. febrúar 2020
Menntamorgunn - Rafræn fræðsla
Menntamorgnar atvinnulífsins – rafræn fræðsla. Fjallað var um fullorðinsfræðslu og starfsmenntasjóðina. Fjallað var um hvernig fjárfesting í rafrænni fræðslu kallar á endurskoðun úthlutunar í starfsmenntasjóðum.
6. apríl 2020