Skip to content

Samtök ferðaþjónustunnar áttu að venju í miklum samskiptum við stjórnvöld á starfsárinu. Slík samskipti fara meðal annars fram með formlegum erindum og ýmsum fundahöldum, t.d. með erindisrekstri fyrir félagsmenn gagnvart ráðuneytum og stofnunum. Þá eru ótalin ýmis formleg og óformleg samskipti starfsfólks og stjórnar SAF við stjórnsýsluna.

Einn mikilvægur þáttur í formlegum samskiptum SAF við stjórnkerfið er að samtökin veita umsagnir um fjölmörg opinber mál árlega. Frá stofnun Samráðsgáttar stjórnvalda hefur slíkum umsögnum fjölgað nokkuð og ferli þeirra er orðið skýrara.

Umsagnir sem SAF veita um mál eru aðgengilegar á vef Alþingis, á Samráðsgátt stjórnvalda og á vefsvæðum stofnana og sveitarfélaga. Umsagnir sem veittar voru á starfsárinu eru nú einnig aðgengilegar á vef SAF:

Á árinu hófst vinna við stefnumótun fyrir íslenska ferðaþjónustu í samvinnu stjórnvalda og SAF. Verkefnið var unnið í tveimur þáttum, annars vegar stefnurammi (policy framework) sem hlaut nafnið Framtíðarsýn og leiðarljós íslenskrar ferðaþjónustu til 2030 og var kynnt í september, og hins vegar aðgerðabundin stefnumótun til 2025 sem unnin er á grunni stefnurammans og stendur til að ljúki í mars 2020. 

Leiðarljós stefnumótunarinnar er að Ísland verði leiðandi í sjálfbærri þróun ferðaþjónustu árið 2030 og litið er til þeirra verkefna sem vinna þarf á tímabilinu til að sú metnaðarfulla framtíðarsýn geti orðið að veruleika. Meðal þátta sem horft er til í stefnurammanum er aukin verðmætasköpun og arðsemi greinarinnar, ávinningur heimamanna um allt land, umhverfislegir þættir, einstök upplifun gesta og undirstöðuþættir eins og samræming, samgöngur, þekking og gæði.   

Hluti af starfi Samtaka ferðaþjónustunnar er að bera saman bækur sínar um starfsumhverfi greinarinnar við systursamtök á sviði ferðaþjónustu á Norðurlöndunum. Samskipti af þessu tagi eru afar gagnleg þar sem upplýsingar sem þar koma fram nýtast í samræðum og rökfærslum um starfsumhverfi ferðaþjónustunnar hér á landi.

Nordisk besöksnäring 

Formaður gististaðanefndar og framkvæmdastjóri SAF sóttu ársfund Norðurlandasamtaka hótel- og veitingamanna í Helsinki í maí en þar var rætt um þau mál sem efst eru á baugi á þeim vettvangi, s.s. aðgengismál, fræðslumál, bókunarþjónustur (OTA‘s), skuggahagkerfið o.fl. Framkvæmdastjóri SAF og formaður gististaðanefndar sóttu einnig stöðufundi Norðurlandasamtakanna sem haldnir voru í Kaupmannahöfn í febrúar og í Hörpu í Reykjavík í október. Ásamt SAF eru það HORESTA í Danmörku, VISITA í Svíþjóð, NHO Reiseliv í Noregi og Ma Ra í Finnlandi sem skipa NB.

HOTREC

SAF eru formlegur aðili að evrópsku hótel- og veitingasamtökunum HOTREC. Á starfsárinu sóttu fulltrúar SAF báða ársfundi HOTREC sem haldnir voru í Helsinki og Króatíu. Á fundunum var m.a. fjallað um þróun og horfur í ferðaþjónustu í Evrópu, þróun deilihagkerfisins, öryggi næturklúbbagesta, starfsemi bókunarsíðna og tækniframfarir innan hótelgeirans.

Nordisk persontransport

Tveir fundir samtaka hópbifreiðafyrirtækja á Norðurlöndunum voru á árinu. Fyrri fundurinn var haldinn í Kaupmannahöfn í júní og sá seinni var haldinn í Brussel í október þar sem IRU, Evrópusamtök vegaflutningsaðila, voru heimsótt . Á þessum fundum er farið yfir þau mál sem efst eru á baugi á vettvangi hópbifreiðafyrirtækja, s.s. félagsleg undirboð og aðgerðir gegn ólöglegri erlendri starfsemi, öryggismál og ESB-tilskipanir um akstur með farþega, hvíldartíma bílstjóra og akstur á milli landa. 

NordPass – Nordisk Passagerarbåt Förening 

Samtök ferðaþjónustunnar eru aðilar að samtökum útgerða með farþegabáta (Nordpass). Samtökin hittast á hverju hausti og var fundur ársins 2019 haldinn í Gautaborg þar sem fulltrúar SAF voru viðstaddir. Á þessum fundum er farið yfir hagsmunamál útgerðarmanna á hverjum markaði og sameiginleg málefni sem nýst geta í viðræðum við stjórnvöld hvers lands. Meðal þeirra atriða sem um er rætt eru öryggismönnun skipanna, gerð og búnaður skipa, aðgengi að námskeiðum, tryggingamál o.fl. 

NVL – norrænt samstarfsnet um nám fullorðinna 

NVL, Norrænt samstarfsnet um nám fullorðinna, er fjármagnað af norrænu ráðherranefndinni og nýja færniþróunarnetið er skipað tveimur fulltrúum annars vegar úr atvinnulífinu og hins vegar fulltrúum fræðsluaðila í fullorðinsfræðslu frá Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi, Noregi og Íslandi.  María Guðmundsdóttir, fræðslufulltrúi SAF, ásamt Sveini Aðalsteinssyni, framkvæmdastjóra Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, eru fulltrúar Íslands í neti um færniþróun 2018-2020 undir NVL. 

Verkefni færniþróunarnetsins er að kanna með hvaða hætti er hægt að mæta nýjum áskorunum, s.s. hnattvæðingu, þróun stafrænnar tækni, auk lýðfræðilegra breytinga, auka aðferðir til náms og samstarf milli ólíkra geira og finna betri sameiginlegar lausnir út frá sjónarhóli atvinnulífsins á Norðurlöndunum. Áherslan verður á færni í atvinnulífinu og út frá sjónarhóli atvinnulífsins. 

Netið fundaði í Stokkhólmi í maí, hélt fund á Íslandi í október og Kaupmannahöfn í nóvember og mun skila af sér lokatillögum og skýrslu til ráðherranefndarinnar í lok árs 2020.  https://nvl.org/natverk/kompetanseutvikling-i-og-for-arbeidslivet

VPL Biennale Berlín

Fræðslufulltrúi SAF tók þátt í ráðstefnu um raunfærnimat sem haldin var í Berlín í maí 2019.  Þetta var þriðja ráðstefnan af þessu tagi en þær eru haldnar annað hvert ár. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur aðkomu að skipulagningu og framkvæmd hennar í gegnum norrænt samstarf um raunfærnimat á vegum NVL (Nordisk Netværk for Voksnes Læring).

Ráðstefnan er áhugaverður vettvangur til að afla upplýsinga um þróun og áhrif raunfærnimats í Evrópu.  Yfirskrift fundarins var Making policy work og dagskrána má finna hér: https://vplbiennale.org/program/

Gerum færni innflytjenda sýnilega

Áskoranir og möguleikar í raunfærnimati eru megininntak VISKA (Visible skills for adults) verkefnisins sem IÐAN fræðslusetur og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins unnu fyrir hönd mennta- og menningamálaráðuneytisins með styrk frá Erasmus+.  Um er að ræða þriggja ára stefnumótandi tilraunaverkefni (2017-2020). Menntavísindastofnun sá um rannsóknarþátt verkefnisins. SAF tóku þátt í baklandshóp um hvernig gera má færni innflytjenda sýnilega og hverjar áskoranir og möguleikar eru í raunfærnimati á móti störfum þessa hóps.

Norræna nemakeppnin 2019

Norræna nemakeppnin í matreiðslu og framreiðslu var haldin í Hótel- og veitingaskólanum í Stokkhólmi dagana 26.–27. apríl 2019. Íslensku keppendurnir í  matreiðslu voru þeir Gabríel Kristinn Bjarnason, nemi á Radisson SAS, Hótel Sögu, meistari hans var Ólafur Helgi Kristjánsson, og Wiktor Pálsson, nemi á Radisson SAS, Hótel Sögu, meistari hans var Sigurður Helgason.  Í framreiðslu kepptu þau Fanney Rún Ágústsdóttir, nemi á Bláa lóninu, meistari hennar var Styrmir Örn Arnarson, og Guðjón Baldur Baldursson, nemi á VOX, Hilton Nordica, meistari hans var Ólöf Kristín Guðjónsdóttir. Íslensku keppendurnir í framreiðslu unnu til bronsverðlauna.

Tillögur að skilvirkara eftirliti með ólöglegri starfsemi

Meðal áhersluverkefna SAF á starfsárinu var greining á eftirliti með ólöglegri starfsemi í ferðaþjónustu, með sérstaka áherslu á starfsemi erlendra fyrirtækja hér á landi. Í mars gáfu samtökin út tillögur að skilvirkara eftirliti með erlendri og ólöglegri starfsemi í ferðaþjónustu. Eftirlitið er í dag á höndum níu stofnana sem heyra undir fimm mismunandi ráðuneyti. 

Tillögurnar fjalla meðal annars um mikilvægi þess að komið verði á lögbundum samstarfsvettvangi eftirlitsaðila. Tillögurnar byggja á reynslu eftirlitsaðila og félagsmanna samtakanna og miða að því að koma í veg fyrir skakka samkeppnisstöðu á ferðaþjónustumarkaði. Ljóst er að fjölmargt er hægt að gera strax með litlum tilkostnaði í heildarsamhengi hlutanna.  

Tíu leiðir til að efla ferðaþjónustu og atvinnulíf á landsbyggðinni

Á síðustu tíu árum hefur uppbygging ferðaþjónustu um allt land leitt af sér meiri og fjölbreyttari uppbyggingu atvinnutækifæra, betri lífskjör og meiri möguleika til þróunar og styrkingar fjölda samfélaga fjarri höfuðborgarsvæðinu en áratugina þar á undan.

Vegna breytinga á samkeppnisstöðu áfangastaðarins Íslands hefur samsetning ferðamanna og ferðahegðun á Íslandi hins vegar tekið breytingum og slíkar sveiflur í samhengi við síaukinn kostnað og erfitt rekstrarumhverfi fyrirtækja þrengja ekki síst að ferðaþjónustufyrirtækjum á svæðum utan höfuðborgarsvæðisins.

Það er mikið hagsmunamál fyrir íslenska ferðaþjónustu, og samfélagið í heild, að rekstrargrundvöllur fyrir ferðaþjónustufyrirtæki um allt land sé góður, allt árið um kring. Í september kynntu samtökin tíu leiðir til eflingar ferðaþjónustu og atvinnulífs á landsbyggðinni í beinni útsendingu úr Húsi atvinnulífsins. 

Hægt er að horfa á útsendinguna hér, á facebook-síðu SAF

Skýrsla Hæfniseturs ferðaþjónustunnar um formlegt nám í ferðaþjónustu

SAF unnu á árinu náið með Hæfnisetri ferðaþjónustunnar, m.a. við útgáfu skýrslu um formlegt nám í ferðaþjónustu. Markmiðið með skýrslunni er að miðla sýn atvinnulífs og menntakerfis á nám í ferðaþjónustu þannig að sú sýn geti verið skólum og yfirvöldum leiðarljós í mótun mennta- og hæfnistefnu fyrir þessa mikilvægu atvinnugrein. Í lok skýrslunnar er gerð grein fyrir ýmsum gagnlegum verkfærum sem auðvelda ættu samþættingu sjónarmiða atvinnulífs og menntakerfis. Með aukinni menntun og áherslu á gæðaþjónustu opnast ný tækifæri.

Hæfnisetur ferðaþjónustunnar sem leitt hefur vinnuna með öflugum stuðningi ráðuneyta, aðila vinnumarkaðarins, fræðsluaðila, skóla og fyrirtækja er reiðubúið til að koma að þessari vinnu áfram enda er umgjörð og hugmyndafræði Hæfnisetursins vel til þess fallin að stuðla að frekara samstarfi. 

Skýrsluna má nálgast á vef Hæfnisetursins.